Þriðji orkupakkin snýr ekki að því hvort ríki missi yfirráð yfir auðlindum sínum, sagði Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, iðnaðarráðherra í sjónvarpsfréttum í kvöld. Guðlaugur Þór Þórðarson, mælti fyrir þriðja orkupakkanum á Alþingi síðdegis. Miðflokkurinn og Flokkur fólksins leggjast gegn honum.
„Flokkur fólksins segir bara nei, við viljum vandaðri vinnubrögð og við hefðum viljað hafa þennan fyrirvara öruggan en ekki svona hroðvirkni eins og er verið að bjóða okkur upp á hér í dag,“ sagði Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, í samtali við Jóhönnu Vigdísi Hjaltadóttur, fréttamann, á Alþingi í dag.
Vísar því á bug að vinnubrögð hafi verið hroðvirknisleg
Þórdís Kolbrún vísar því alfarið á bug að undirbúningur málsins hafi verið hroðvirknislegur. Hún segir að sjaldan hafi verið lögð jafn mikil vinna í mál sem þetta. Þá kveðst hún fullviss um að ekki sé verið að framselja vald með innleiðingunni. „Þetta mál hefur verið til meðferðar í kerfinu í fjölda mörg ár og frá því að við ætluðum að leggja þetta fyrst fram síðasta vor þá höfum við lagst í ótrúlega mikla vinnu, djúpa vinnu og fengið fjölda marga sérfræðinga að borðinu og ég hugsa að það sé ekki oft sem svona mál hefur fengið svona góða yfirferð.“
Miðflokkurinn telur málið vanreifað
Miðflokkurinn er á móti innleiðingu þriðja orkupakkans og segir Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður flokksins, að málið sé vanreifað. „Við teljum að ríkisstjórnin gerði best í því að taka það til baka og vinna það betur áður en þeir koma með það hérna inn, hluti af þessu máli brýtur í bága við stjórnarskrá Íslands og í því felst framsal á valdi,“ segir hann. Andstæðingar orkupakkans hafa lýst yfir áhyggjum af því að sæstrengur verði lagður frá Íslandi til Evrópu sem myndi tengja landið við sameiginlegan raforkumarkað.
Segir andstæðinga á villigötum
Iðnaðarráðherra telur alveg öruggt að sæstrengur til flutnings raforku verði ekki lagður nema með samþykki Alþingis. „Við höfum fullt forræði yfir því hvort við leggjum sæstreng. Það er allt önnur umræða hvort það sé góð hugmynd eða ekki. Það hefur verið skoðað í 25 ár og lítið gerst í því. Við erum meir að segja til viðbótar við þetta að leggja til sérstakt frumvarp sem segir að hingað verði ekki lagður sæstrengur nema með samþykki Alþingis og það er til þess að taka af allan vafa.“ Þórdís Kolbrún segir að þeir sem haldi því fram að verið sé að fremja stjórnarskrárbrot og framselja vald séu á villigötum og hafi ekki lagt fram efnisleg rök fyrir máli sínu. „Það er einfaldlega þannig að ég myndi aldrei leggja til að Íslendingar innleiddu einhvern pakka frá ESB sem er hluti af EES-samningnum ef að ég teldi minnstu trú á því að við værum að missa að einhverju leyti yfirráð yfir okkar auðlindum. Þessi þriðji orkupakki snýr ekkert að því og það sem umræðan er helst um hjá helstu andstæðingum, eru atriði sem snúa helst að ríkisstyrktarreglum, fjórfrelsinu samkeppnislöggjöf og þetta eru allt atriði sem menn kvittuðu upp á árið 1994.“
Samfylking, Píratar og Viðreisn fylgjandi 3. orkupakkanum
Samfylkingin er fylgjandi innleiðingu þriðja orkupakkans. „Við teljum að það eigi að innleiða þetta. Ég gæti staðið hérna í langan tíma og farið yfir þann hræðsluáróður, lygar, beinlínis falsfréttir sem hafa heyrst um þetta en það er mikilvægt að ríkisstjórnin sem ber upp málið stigi núna bara sterkt inn,“ sagði Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar.
Viðreisn styður orkupakkann en varaformaðurinn hefur gagnrýnt málflutning andstæðinganna. „Ég held að í þessari umræðu hafi innistæðulausum hræðsluáróðri verið leyft að grassera allt of lengi og það kemur auðvitað á daginn þegar að sú yfirlýsing sem að fylgir þessum þingpakka frá Evrópusambandinu er skoðuð að hún staðfestir auðvitað í einu og öllu það sem allan tímann hefur verið sagt um það að hér sé engin hætta á ferðinni við innleiðinguna,“ segir Þorsteinn Víglundsson.
Þingflokkur Pírata er jákvæður gagnvart þriðja orkupakkanum. „Það er ekkert í honum sem er nein ástæða til að hafa áhyggjur af, fólk hefur verið að lýsa áhyggjum af stjórnskipulegum atriðum en þau falla bara undir EES-sáttmálann eins og annað og var gengið frá því 1994,“ segir Smári McCarthy, þingmaður Pírata.