Félagsdómur dæmdi í kvöld örverkföll Eflingar ólögleg. Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir dómstólinn hafna túlkun Eflingar á vinnulöggjöfinni. Hann fagnar niðurstöðu dómsins en segir SA hafa verið viss í sinni sök og úrskurðurinn hafi því ekki komið á óvart.
Málflutningur í Félagsdómi hófst klukkan tvö í dag og lá niðurstaða fyrir rétt rúmum þremur tímum síðar. Fjögur af sjö boðuðum verkföllum Eflingar voru dæmd ólögmæt.
„Félagsdómur úrskurðaði núna klukkan sex í dag að fjögur af þessum sjö boðuðu verkföllum væru dæmd ólögmæt, það er að segja öll þessi örverkföll sem að Efling stéttarfélag hafði boðað til. Það sem að er ánægjulegt í þessu er að hér var verið að reyna á þanþol vinnulöggjafarinnar með nýjum hætti og félagsdómur hafnar þessari túlkun Eflingar með öllum greiddum atkvæðum, “ sagði Halldór Benjamín í kvöldfréttum sjónvarps.
Og hvaða rök eru fyrir því?
„Rökin eru þau að þetta standist ekki vinnulöggjöfina og þessi beiting verkfallsréttarins og þróun hans standist einfaldlega ekki lög og því séu þessu boðuðu verkföll ólögmæt og koma þar af leiðandi ekki til framkvæmda.“
- Nú stefnir VR líka í verkföll, munið þið stefna þeim líka fyrir Félagsdóm?
„Við höfum ekki tekið ákvörðun um það. Það eru svo sem fleiri verkföll á döfinni eins og lýst hefur verið, bæði af VR og Eflingu. En aðalatriðið í umræðinni er þetta; að aðilar verða að ná sér saman um kjarasamning til að forða því yfirvofandi tjóni sem að við sjáum að er framundan. Það er verkefni næstu daga og þessarar helgar og mikilvægt að vel til takist í þeim efnum.“
Hann segir úrskurð Félagsdóms ekki hafa komið á óvart. „Það tók félagsdóm rétt rúmar þrjár klukkustundir að komast að einróma niðurstöðu. Við vorum auðvitað viss í okkar sök, að þessi skrumskæling vinnulöggjafarinnar gæti ekki staðist, og við fögnum því úrskurði Félagsdóms í dag.“