Segir meira fást fyrir langtímaleigu

22.02.2017 - 09:48
Eygló Harðardóttir, þingmaður framsóknarflokksins og fyrrverandi húsnæðismálaráðherra segir að  til þess að leysa vanda á húsnæðismarkaði til skamms tíma þurfi að horfa til þeirra íbúða sem þegar séu til og séu margar í skammtímaleigu til ferðamanna.

Hún vill að upplýsingum um kosti þess að setja íbúðir í langtímaleigu sé líka komið betur á framfæri við húseigendur. Eygló bendir á að vegna breytinga á sköttum sem síðasta ríkisstjórn réðst í þá sé það í raun hagkvæmara fyrir eigendur að leigja einstaklingum til langs tíma. Þá séu menn lausir við umstang sem fylgir skammtímaleigu til ferðamanna og þau gjöld sem fylgi atvinnurekstri. Með því að fría íbúðir úr ferðamannaleigu ætti að vera auðveldara fyrir fólk sem rætt hefur við undanfarið og lent hefur í hremmingum á húsnæðis- og leigumarkaði að finna íbúðir. 

Hún telur líka að einfalda megi regluverk um nýbyggingar svo ódýrara verði að byggja.