„Þetta er einfaldlega ekki boðlegt. Því miður,“ segir Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, um viðbrögð Seðlabankans við forsenduákvæði í kjarasamningum um að vextir verði að lækka, ellegar megi krefjast þess að samningarnir verði endurskoðaðir.
Már Guðmundsson seðlabankastjóri sagði við fréttastofu í dag að þetta ákvæði hlyti að vera mistök. Gylfi Magnússon, formaður bankaráðs Seðlabankans, hefur sagt að ákvæðið væri skrýtið. Gylfi Zoega, fulltrúi í peningastefnunefnd bankans, sagði það vera galið .
Ragnar Þór segir að Seðlabankinn hafi í gegnum tíðina ítrekað stillt verkalýðshreyfingunni upp við vegg. Hótað því að hækka vexti ef samið yrði um of miklar launahækkanir og hafi hækkað vexti þrisvar eftir kjarasamninga árið 2015 og étið upp nær allan kaupmáttinn.
„Að stíga síðan fram eins og einhverjar prímadonnur sem má ekki anda á. Mér finnst þetta einfaldlega ekki boðlegur málflutningur,“ sagði Ragnar Þór Ingólfsson.