Bergljót Davíðsdóttir telur brýnt að lögregla breyti verklagsreglum sínum, ekki síst hvað varðar unglinga. Fyrir ári síðan var 17 ára dóttursonur hennar handtekinn af lögreglu eftir að hann sprautaði sig með innsúlíni á skólaballi. Þar töldu menn hann vera að sprauta sig með fíkniefnum. Í viðtali í Morgunútvarpi Rásar 2 sagði Bergljót að lögregla hafi beitt drenginn harðræði og að það hafi verið mikið áfall.
Bergljót vakti fyrst athygli á málinu með pistli sem hún birti síðasta föstudag. Dóttursonur Bergljótar greindist með sykursýki þrettán ára gamall. Bergljót segir að atvikið hafi haft mikil áhrif á drenginn og hana sjálfa. Þegar hún hafi komið að sækja hann á lögreglustöðina hafi verið búið að rífa fötin hans og hann hafi verið marinn og blár, fyrir utan að vera í óráði vegna skyndilegs sykurfalls.
„Mér finnst alveg ömurlegt til þess að vita að lögregla skuli ekki kunna að tækla unglinga. Það er alltaf komið fram við unglinga af óvirðingu og þeir gefa sér það að hann sé undir áhrifum efna þótt þeir hafi ekki hugmynd um það. Og þó svo að það hefði verið þá á ekki að fara svona með einn eða neinn," sagði Bergljót í Morgunútvarpinu.
Bergljót sagðist hafa sent erindi til nefndar sem meti hvort lögregla hafi gerst brotleg í starfi en héraðssaksóknari hafi úrskurðað að svo margir lögreglumenn hafi komið að málinu að ekki væri hægt að draga einn eða tvo til ábyrgðar. „Þar með var sú leið ófær. Það þýðir þá ekkert annað en að ég fari í einkamál við ríkið." Fyrst og fremst vilji hún hins vegar að lögregla breyti verklagsreglum sínum. „Að það verði ekki tekið hart á fólki og að það sé komið fram við það af virðingu. Það er ömurlegt hvernig lögreglan er farin að koma fram við fólk, setja það í járn aftur fyrir bak og beita það harðræði. Sykursjúkir, flogaveikir og fleiri geta lent í því að fara í það ástand að einhver haldi að þeir séu undir einhverjum áhrifum. En það breytir ekki því að það á aldrei að koma svona fram við neinn."