Rannveig Grétarsdóttir, stjórnarformaður hvalaskoðunarfyrirtækisins Eldingar og formaður Hvalaskoðunarsamtaka Íslands, segir að lítið sé gert úr náttúruverndarsamtökum í nýrri skýrslu um hvalveiðar. Þau séu flokkuð sem hryðjuverkasamtök. Þá sé skýrslan einhliða og áróðurskennd og beri þess merki að niðurstöðuna hafi menn gefið sér fyrir fram.
Skýrslan var til umræðu í Kastljósi í kvöld. Oddgeir Ágúst Ottesen, hagfræðingur og höfundur skýrslunnar, var spurður út í þjóðhagslega hagkvæmni hvalveiða. Sérstaklega í ljósi slakrar afkomu Hvals og neikvæðrar umfjöllunar um hvalveiðar.
„Fyrir þjóðfélagið skiptir ekki endilega öllu máli hver hagnaðurinn er. Það er ekki verra að fyrirtækið borgi góð laun og skili litlum hagnaði, fyrir þjóðfélagið í heild, heldur en mikill hagnaður og að það borgi lág laun,“ sagði Oddgeir. Hann sagði að ferðamönnum hefði fjölgað þrátt fyrir hvalveiðar og að veiðarnar hefðu ekki dregið úr fisksölu til útlanda. Það styddu tölur bæði frá fyrri hvalveiðiárum og frá síðustu árum.
Ekki rætt við stjórnendur hvalaskoðunarfyrirtækja
Rannveig sagðist hafa rætt við stjórnendur hvalaskoðunarfyrirtækja í dag og að enginn þeirra kannaðist við að rætt hefði verið við sig í tengslum við gerð skýrslunnar. „Það er mjög skrýtið, ég er með 40 prósent allrar hvalaskoðunar á landinu og ég er formaður hvalaskoðunarsamtaka og það var ekki talað við mig.“ Oddgeir sagðist hafa talað við starfsmenn hvalaskoðunarfyrirtækja.
„Þegar ég las skýrsluna leið mér eins og þið hefðuð fengið Morfísverkefni, að þið hefðuð fengið verkefni að tala með hvalveiðum og bjugguð til skýrslu út frá því. Það er mikill áróður í skýrslunni,“ sagði Rannveig. Hún telur að niðurstöður skýrslunnar séu fyrirframgefnar. „Það er ótrúlegt hvað er gert lítið náttúruverndarsamtökum, þau eru öll flokkuð sem hryðjuverkasamtök,“ sagði Rannveig en Oddgeir sagði það ekki rétt. Hún sagði að í skýrslunni væri talað um áhrif hvalaskoðunar á hrefnuveiðar en ekki áhrif hrefnudráps á hvalaskoðun. „Það er verið að taka bara annað sjónarhornið í þessu.“
Samtök sem velta háum fjárhæðum
Í skýrslunni er því velt upp að íslensk stjórnvöld setji hryðjuverkalög til að verjast náttúruverndarsamtökum sem beiti hryðjuverkum. „Við fjöllum um umhverfissamtök og þá fjárhagslegu hagsmuni sem þau hafa af baráttunni gegn hvalveiðum,“ sagði Oddgeir. „Þetta eru samtök sem velta mjög háum fjárhæðum og þetta eru samtök sem borga mjög há laun,“ sagði Oddgeir og tiltók forstjóra sem fengju milljónir í laun á mánuði. Hann sagðist ekki vera að leggja öll náttúruverndarsamtök undir sama hatt.
Oddgeir sagði ekkert til í því að niðurstöður skýrslunnar væru fyrirframgefnar. „Ég hafna því algjörlega. Það reyndi enginn að hafa áhrif á niðurstöðu þessarar skýrslu.“
Þetta er ekki spurning um annað hvort eða, sagði Oddgeir. „Hvalaskoðun getur alveg gengið þó að það séu hvalveiðar.“ Markmiðið með skýrslunni væri að meta þjóðhagslega hagkvæmni hvalveiða. Það hefði verið gert og skoðað hvernig væri hægt að nýta auðlindina.
Umdeilt mat
Í skýrslunni segir að fækkun hvals um fjörutíu prósent myndi auka útflutningstekjur Íslendinga um tugi milljarða. Höfundar skýrslu Hagfræðistofnunar um hagkvæmni hvalveiða við Ísland ganga lengra í fullyrðingum sínum en Hafrannsóknastofnun er tilbúin að gera, sagði Gísli Víkingsson, dýravistfræðingur á Hafrannsóknastofnun. Gísli sagði að hvalveiðar við Ísland séu sjálfbærar en honum þætti rangt að veiða hval til þess eins að það verði hugsanlega meiri fiskur í sjónum handa mannfólkinu. Oddgeir sagðist hafa fengið greinargerð frá Hafrannsóknastofnun og verið í miklum samskiptum við Gísla. Í skýrslunni væri varfærin útfærsla á mati hans á áhrifum hvalveiða.