Það hefur vaknað rökstuddur grunur um að dómsmálaráðherra hafi misbeitt valdi sínu og farið á svig við upplýsingalög til að vernda æru og heiður föður forsætisráðherra. Þetta sagði Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, í Kastljósi í kvöld. Þar var rædd staðan sem komin er upp eftir að í ljós kom að Benedikt Sveinsson, faðir Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra, hefði skrifað upp á meðmælabréf með því að Hjalti Sigurjón Hauksson fengi uppreist æru.
Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, Lilja Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins, og Þórhildur Sunna ræddu málið í Kastljósi.
Í dag kom í ljós að faðir forsætisráðherra hefði skrifað upp á meðmælabréf Hjalta um að hann fengi uppreist æru. Hjalti var sakfelldur fyrir kynferðisbrot gegn stjúpdóttur sinni í tólf ár. Einnig kom fram að Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra tilkynnti Bjarna Benediktssyni í júlí að faðir hans hefði skrifað undir meðmælabréfið. Skömmu síðar tilkynnti Bjarni að hann hefði ekki verið starfandi dómsmálaráðherra þegar uppreist æru Roberts Downeys var samþykkt, eins og upphaflega var talið.
Eðlilegt að hvorugur ráðherrann upplýsti nefndina
Brynjar sagðist hafa frétt af undirskrift föður forsætisráðherra þegar hann sá frétt Vísis um málið klukkan hálf fimm í dag. Hann sagði að hvorki dómsmálaráðherra né forsætisráðherra hefði upplýst stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd um þetta. Brynjar sagði ekkert undarlegt við það. Nefndin hefði fengið gögn málsins afhent sem trúnaðarmál meðan úrskurðarnefnd upplýsingamála úrskurðaði um hvað mætti birta opinberlega.
„Það skiptir engu máli hvort einhver þeirra sé faðir forsætisráðherra, afi hans eða amma. Málið snýst ekki um að,“ sagði Brynjar. Baldvin Þór Bergsson, þáttastjórnandi Kastljóss, sagði málið hljóta að snúast um hvort einhvern sem tengist forsætisráðherra fjölskyldutengslum hafi haft áhrif á þá ákvörðun að birta gögnin ekki opinberlega. Brynjar svaraði því til að menn sem birtu opinberlega gögn sem ríkja ætti leynd um gætu borið refsiábyrgð. Þess vegna væri úrskurðarnefnd upplýsingamála til að leiðbeina um hverju mætti greina frá. „Þetta er ekki spurning um einhverja leynd, eða samsæri eða eitthvað slíkt. Það er eitthvað sem verður bara til í umræðunni hér vegna þess að þetta er forsætisráðherra eða þessi flokkur eða eitthvað.“
Varpar nýju ljósi á viðbrögð forsætisráðherra
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, sagði uppljóstranir dagsins varpa nýju ljósi á viðbrögð forsætisráðherra þegar uppreist æru Roberts Downeys hefði komið í umræðuna. Þá hefði forsætisráðherra talað niður eðlilegar spurningar og sagt að tilfinningar mættu ekki ráða för.
Hún sagði að í öðru lagi hefði þetta varpað ljósi á það hvernig dómsmálaráðherra og formaður allsherjar- og menntamálanefndar hefðu hagað sér á opinberum nefndarfundi sem Þórhildur óskaði eftir. Þá hefði formaður nefndarinnar lýst því að ekki mætti ræða mál Roberts Downeys, hins vegar hefði nefndasvið Alþingis sagt að ræða mætti málið. Þrátt fyrir það hefðu þær sagt að þær mættu ekki ræða málið. „Það sem mér finnst alvarlegast í þessu máli er einfaldlega það að það er rökstuddur grunur um það að dómsmálaráðherra Íslands hafi misbeitt valdi sínu, hafi farið á svig við upplýsingalög, hafi neitað almenningi og fjölmiðlum og Alþingi um upplýsingar sem hann átti fullan rétt á til að vernda æru og heiður föður forsætisráðherra Íslands.“
Aðalatriðið að breyta þarf lögum
Lilja Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins, sagði aðalatriði málsins að breyta þyrfti lögunum. Það hefði verið stöðug barátta að fá gögnin upp á yfirborðið. Hún sagðist ekki hafa hugmynd um hvort menn hefðu vitað að meðmælum föður forsætisráðherra með beiðni Hjalta um uppreist æru. Lilja sagði að menn þyrftu að vanda sig meira við svona viðkvæm mál. Hún nefndi sérstaklega að nefndaformenn þyrftu að kanna málin til hlítar áður en þeir neituðu því að hægt væri að ræða mál.
Brynjar sagði það ekki setja sig í erfiða stöðu að um samflokksmenn sína væri að ræða. Hann sagðist viss um að hann hafi varið einhverra þeirra manna sem séu til umræðu. „Ef ég man rétt þá held ég að ég hafi varið þennan Hjalta einhvern tímann, bara svo það sé upplýst.“ Hann sagði starf nefndarinnar ekki snúast um einstök mál heldur framkvæmd laga. Brynjar sagði það engu skipta þó faðir forsætisráðherra ætti í hlut.
„Vont fyrir Benedikt“
Benedikt, faðir forsætisráðherra, sagði í yfirlýsingu sinni í dag að hann hefði skrifað undir tilbúið bréf sem Hjalti hefði lagt fyrir hann. „Það finnst mér vont fyrir Benedikt,“ sagði Brynjar. Lilja sagðist hafa óskað upplýsinga um hvort sannreynt væri að lýsingar í meðmælabréfunum væri skoðuð. Nú kæmi í ljós að svo væri ekki. Því andmælti Brynjar en Þórhildur Sunna tók undir með Lilju.
Þórhildur Sunna sagði að bæði forsætisráðherra og dómsmálaráðherra kæmu illa út úr málinu, dómsmálaráðherra þar sem hún hefði neitað að veita upplýsingar sem henni væri skylt að veita. Sama ætti við um stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. „Hvers konar rugl er þetta?“ spurði Brynjar og sagði að nefndin mætti ekki aflétta trúnaði um gögn sem sér væru afhent í trúnaði.
Þegar umræðan snerist að því hvort Brynjar nyti trausts sem formaður nefndarinnar í umfjöllun málið, sagði Lilja að það þyrfti að skoða stöðuna ef Brynjar hafi varið Hjalta, eins og Brynjar sagði fyrr í þættinum. Þórhildur Sunna sagði fulla ástæðu til að efast um málsmeðferðina í ljósi þess sem kom fram í dag. „Þeir sem eru alltaf að tortryggja allt spyrja svona spurninga,“ sagði Brynjar og andmælti orðum Þórhildar að þetta væru eðlilegar spurningar.