Gunnar Bragi Sveinsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, segir að það væri algjört glapræði að nefnda dagsetningu á kosningum. Þá myndi stjórnarandstaðan fá vopn í hendurnar og gæti stöðvað mál með málþófi. Gunnar Bragi var gestur Morgunútvarpsins.

„Við skulum alveg hafa það á hreinu að um leið og dagsetning verður komin þá er stjórnarandstaðan komin með ákveðið vopn í hendurnar, þá getur hún tekið þingið í gíslingu og ráðið því nákvæmlega hvaða mál fara í gegnum þingið,“ segir Gunnar Bragi og bætir við: „Hún getur stýrt dagskránni í rauninni með málþófi eða kröfum. Það er ástæðan fyrir því að það er ekki hægt að nefna dagsetningu fyrir fram.

Ef að stjórnarandstaðan er tilbúin að hleypa í málunum í gegn sem ríkisstjórnin hefur lagt áherslu á, ég vil meina að þetta séu kannski fá umdeild mál þar inni, þá er hægt að nefna dagsetningu en stjórnarandstaðan hefur ekki verið tilbúin til þess að gera þetta með þessum hætti og þess vegna liggur ekki dagsetning fyrir. Það er algjört glapræði upp á störf þingsins og fyrir ríkisstjórnina, sem ætlar að ná ákveðnum málum í gegn að nefna dagsetningu fyrir fram.“

Hann segir að ríkisstjórnin hafi um fimmtíu mál sem hún vilji koma í gegnum þing áður en kosið verður og nefnir hann sérstaklega búvörusamninga. „Það eru eftir sirka fimmtíu mál, ég man ekki þessa tölu, sem að æskilegt er að verði kláruð. Það er sá rammi sem að ég held að sé nauðsynlegur. Það er óásætanlegt fyrir okkur að taka mál þar út af. Er hægt að breyta þeim lítillega til að ná markmiðum? Það gæti vel verið, við erum að vinna að útfærslum að búvörusamningum til dæmis,“ segir Gunnar Bragi.

Gunnar Bragi ræddi enn fremur stöðu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanni Framsóknarflokksins og fyrrverandi forsætisráðherra. „Málið er það að Sigmundur Davíð er formaður flokksins og það er enginn sem er líklegur til að bjóða sig fram gegn honum. Hann hefur verið mjög traustur og góður formaður og ég ber fullt traust til hans. Ég held að hann sé okkur mjög mikilvægur í komandi kosningum. Þannig að ég get ekki séð að það verði endilega farið í eitthvert formannskjör þó við höldum flokksþing,“ segir Gunnar Bragi.