Áformum Ólafs Ólafssonar um risahótel á sunnanverðu Snæfellsnesi hefur verið slegið á frest en enn er þó unnið að gerð stærðar baðlóns á svæðinu. Oddvitinn í hreppnum segir íbúa jákvæða og að fortíð Ólafs í viðskiptum trufli þá ekki.

Ólafur Ólafsson og kona hans eiga nokkrar jarðir á sunnanverðu Snæfellsnesi, til dæmis Borg, Miðhraun og Laxárbakka. Á einni þeirra, Eiðhúsum, hafa um skeið verið starfrækt fimm gistirými á vegum Festis, fasteignafélags Ólafs sem meðal annars er á bak við fyrirhugaða uppbyggingu í Vogabyggð. Í september 2017 kynntu forsvarsmenn Festis áform um að reisa allt að 150 herbergja hótel og gera stórt baðlón í landi Eiðhúsa.

Aðalskipulagi svæðisins var breytt í desember og nú er gert ráð fyrir að á landinu geti verið allt að sex þúsund fermetra baðlón og allt að tólf þúsund fermetra hótelbygging.

Hóteláformin eru reyndar í biðstöðu – Róbert Aron Róbertsson, framkvæmdastjóri Festis, segir að til standi að byrja á lóninu og hafa það um 1.500 fermetra í fyrstu. Hótelið kæmi þá síðar, ef vel gengur.

Ólafur Ólafsson fékk fjögurra og hálfs árs fangelsisdóm í Al Thani-málinu og rannsóknarnefnd Alþingis taldi að hann hefði blekkt þjóðina við einkavæðingu Búnaðarbankans 2003. Eggert Kjartansson, oddviti Eyja- og Miklaholtshrepps, segir að þetta trufli fólk ekki.

„Nei, í rauninni ekki, vegna þess að þetta er bara fjárfestingafélag og eigandi jarðarinnar sem er að gera þetta. Og við í sjálfu sér bara fögnum uppbyggingu í samfélaginu,“ segir hann.

„Ef fólk vill byggja upp þá vinnum við með því fólki. Vegna þess að uppbygging af þeirri stærðargráðu sem við erum að tala um og sem er fyrirhuguð á Eiðhúsum – sem er enn bara í kortunum – hún hefur mjög mikil jákvæð áhrif á ferðaþjónustu, ekki bara á Vesturlandi heldur á Snæfellsnesi og hjá okkur.“

Eggert segir að rætt sé um Vesturland og Snæfellsnes sem hið nýja Suðurland, þegar kemur að ferðamannastraumi, en þó vanti þar afþreyingu.

„Við erum með á Snæfellsnesi frábært landslag og mikið í boði en það er ekki afþreying. Að fá afþreyingu sem slíka – þetta skiptir bara máli.“