Vakning hefur orðið hjá neytendum um allskyns umbúðir, þá sérstaklega plast sem bunkast upp á heimilum mörgum til ama. Nú bjóða verslanir Krónunnar viðskiptavinum að skilja umbúðir eftir í búðinni, þar sem þær eru svo flokkaðar og sendar í endurvinnslu.

Gréta María Grétarsdóttir, framkvæmdastjóri Krónunnar, var gestur Síðdegisútvarpsins á Rás tvö. Þar ræddi hún þessa nýjung sem hún segir vera svar við kalli viðskiptavina sem vilja minni sóun. „Bæði matarsóun og umbúðasóun. Þarna erum við að bjóða upp á það að þú geti bara sleppt því að taka plastið og pappann heim.“

Fyrst um sinn verður boðið upp á flokkun í tveimur verslunum Krónunnar, á Granda og í Lindum í Kópavogi. Ef vel gengur bætast fleiri verslanir í hópinn en að sögn Grétu hafa viðtökur farið fram úr björtustu vonum. Nú þegar hefur fólk auk þess hringt í verslanirnar og lýst áhuga á að nýta það sem fellur til. 

Gréta segir að ábyrgðin sé ekki einungis seljenda en þessi valmöguleiki sé skref í rétta átt. „Sóunin er ekki bara okkar mál, það er að segja ekki okkar bara í Krónunni, heldur okkar allra og við erum að vinna líka rosalega náið með framleiðendunum og þeir eru að taka vel í þetta og allir orðnir mjög meðvitaðir. Þannig að þeir eru að breyta líka. Það er að minnka umbúðarnotkun þar líka, sem er bara rosalega jákvætt. Vonandi í framtíðinni munum við gera mun betur en í dag en vonandi er þetta bara skref í rétta átt.“