Bændasamtök Íslands óttast ekki samkeppni við innfluttar vörur ef þær eru framleiddar við sömu skilyrði og þær íslensku, segir Guðrún Sigríður Tryggvadóttir, formaður Bændasamtakanna. Ársfundur þeirra verður haldinn í Hveragerði um helgina. Samtökin leggjast gegn frumvarpi landbúnaðarráðherra um innflutning á ófrosnu kjöti.

„Það er alveg rétt að við óttumst þennan innflutning. Hins vegar óttumst við ekki samkeppni ef að hún er réttlát, það er að segja að það sé verið að flytja hingað inn vöru sem er framleidd við sambærileg skilyrði. Við verðum að treysta því að sú matvara sem er í boði sé laus við fjölónæmar bakteríur og sýkalyf og önnur óæskileg efni og lykilatriðið er að neytendur geti tekið upplýsta ákvörðun um þær vörur sem þeir eru að kaupa,“ sagði Guðrún í viðtali á Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun. 

Bregðast við dómum EFFA og Hæstaréttar

Landbúnaðarráðherra hefur lagt fram drög að frumvarpi um breytingar á reglum um innflutning á fersku kjöti. Hingað til hefur það skilyrði verið sett að kjöt hafi verið fryst í að minnsta kosti 30 daga og innflytjendur hafa þurft að sækja um sérstakt leyfi til innflutningsins. Verði frumvarpið að lögum þarf ekki lengur að frysta og um kjötið gilda reglur um frjálst flæði vara á Evrópska efnahagssvæðinu. Hæstiréttur og EFTA-dómstóllinn hafa í dómum sínum komist að þeirri niðurstöðu að takmarkanir á innflutningi á kjöti sé brot á EES-samningnum.

Telja búfjárstofna viðkvæma fyrir erlendum sjúkdómum

Bændasamtök Íslands hafa lagst gegn því að reglur verði rýmkaðar á þennan hátt. „Það er þannig að á Íslandi búum við með búfjárstofnum sem komu með landsnámsmönnum og landið hefur verið gríðarlega einangrað. Þeirra ónæmiskerfi er lítið varið fyrir því sem er í gangi úti í heimi,“ segir Guðrún. Einnig sé brýnt að velta því fyrir sér hvað gerist ef náttúruhamfarir verða og landið einangrast og matvælaframleiðsla á Íslandi væri ekki sjálfbær.

Lagabreytingarnar ganga út á viðskiptahagsmuni og viðskiptafrelsi, að mati Guðrúnar. „Er það ekki það sem við erum að horfa á í þessum heimi í dag, bæði með loftslagsmálin og þessi heilbrigðismál, að þetta snýst í raun um viðskiptahagsmuni?“