Áform um aukið eftirlit í sjávarútvegi ganga alltof langt, að mati Halldórs Benjamíns Þorbergssonar, framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins. Verði einni eftirlitsstofnun ríkisins veittar auknar heimildir fylgi fleiri í kjölfarið.

Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra hefur kynnt drög að frumvarpi sem ætlað er að tryggja skilvirkt regluverk og eftirlit með sjávarútvegi og taki á brotum gegn fiskveiðilöggjöfinni en hafi um leið ákveðinn fælingarmátt. Í drögunum er gert ráð fyrir vöktunarkerfi með myndavélum í öllum höfnum þar sem fiski er landað og hjá öllum vinnslustöðvum sem hafa vigtunarleyfi.

Fiskistofustjóri bindar miklar vonir við að frumvarpið verði samþykkt og auknar heimildir fáist. Samtök atvinnulífsins leggjast alfarið gegn því. Halldór Benjamín var gestur Morgunútvarpsins á Rás2 í morgun. „Það er verið að leggja til að setja upp myndavélar og fylgjast með einstaklingum og vinnu þeirra um borð í öllum fiskiskipum, öllum höfnum, flutningatækjum, fiskvinnslum auk þess, og haldið ykkur núna fast, þá er lagt til að Fiskistofa reki flota af fjarstýrðum loftförum til að tryggja að eftirlitið verði, eins og þeir orðuðu það, alsjáandi um hegðan í raun allra þeirra sem koma að þessu. Ég held að við verðum að spyrja okkur, hvenær er gengið of langt. Í mínum huga er enginn vafi að hér er gengið alltof langt, og ekki bara út frá hagsmunum atvinnulífsins, mér sem borgara hugnast ekki þessi þróun og ég tel eðlilegt að við spyrnum við fótum í þessu tilviki“. 

Meginmarkmið frumvarpsins er að sporna við brottkasti og vigtunarsvindli, en Fiskistofa hefur ekki haft bolmagn til að sinna eftirliti fram til þessa. Halldór segir þetta frumvarp einhvers konar frumhlaup og vonast til að það verði ekki samþykkt. „Við erum með fjölda eftirlitsstofnana og það er enginn skortur á því að það sé vilji hjá þeim öllum til þess að auka eftirlit með borgurum og fyrirtækjum. Það er skylda okkar að staldra aðeins við og hugsa, hvernig samfélag viljum við byggja upp og ég segi við ykkur. Mér finnst sú mynd sem þarna er dregin upp einfaldlega vera ógeðfelld og get ekki sætt mig við þetta,“ segir Halldór Benjamín.