Segir ásakanir gegn sér skrípaleik

11.05.2017 - 05:30
epa05955373 Former president of Brazil Luiz Inacio Lula da Silva (C) arrives to the Federal Court of Justice in Curitiba, Brazil, 10 May 2017. The former president is set to appear before the Federal Judge Sergio Moro, who is overseeing the so-called &
 Mynd: EPA  -  EFE
Lula da Silva, fyrrverandi forseti Brasilíu, segir ásakanir gegn sér um spillingu vera algjöran skrípaleik. Nafn hans er það stærsta í umfangsmiklu spillingarmáli sem tengist ríkisolíufyrirtækinu Petrobras, þar sem milljarðar dala fóru manna á milli í mútufé. Fjöldi stjórnmálamanna og embættismanna eru taldir eiga aðild að málinu.

Grunur leikur á að stjórnmálamenn hafi þegið háar mútur fyrir að færa ákveðin verkefni í hendur réttra manna. Lula er sakaður um að hafa leyft spillingunni að þrífast á meðan hann gegndi embætti forseta á árunum 2003 til 2010. Þá á hann að hafa hagnast persónulega á henni. Honum er til að mynda gefið að sök að hafa þegið strandíbúð fyrir að hjálpa verktakafyrirtækinu OAS að fá verkefni á vegum stjórnvalda. 

Lula var leiddur fyrir dómara í gær. Hann sagði dómaranum að hann teldi réttarhöldin ólögmæt og ásakanir gagnvart sér vera farsa. Hann væri sóttur til saka vegna ásakana í fjölmiðlum.  Þegar hlé var gert á réttarhöldunum fór Lula út fyrir dómshúsið þar sem hann hélt fund með stuðningsmönnum sínum sem voru mættir í þúsundatali. Þar ítrekaði hinn 71 árs gamli fyrrum forseti áform sín um að bjóða sig fram á nýjan leik, að sögn Al Jazeera fréttastofunnar. Hann vilji sýna elítunni að hún geti ekki breytt landinu eftir eigin höfði.

Yfir 90 áhrifamiklir kaupsýslumenn og stjórnmálamenn hafa verið fundnir sekir vegna spillingarmálsins. Rannsókn þess hefur tekið um þrjú ár og hafa fleiri ríkisfyrirtæki flækst í það með tímanum. Verði Lula fundinn sekur bíður hans líklega fangelsisvist, auk þess sem hann getur ekki boðið sig fram til forseta.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV