Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, landbúnaðarráðherra, segir að kominn sé tími á aðgerðir sem leiði ekki af sér endurtekið efni og að nú verði reynt að nálgast vandann á annan hátt en undanfarin ár. Hún segir mikilvægt að þrátt fyrir ágreining við bændaforystuna haldi samtalið áfram.
Þorgerður Katrín kynnti í dag tillögur sem miða að því að bregðast við bráðavanda sauðfjárbænda.
Þeir höfðu sjálfir óskað eftir því að meira fé yrði varið til markaðsmála og að útflutningsskyldu yrði komið á að nýju en á það féllst Þorgerður ekki. „Útflutningsskyldan kann að hafa verið réttlætanleg á sínum tíma en þetta er gamaldagsleið sem á endanum sendir reikninginn yfir á neytendur,“ sagði hún í kvöldfréttum RÚV.
Meginmarkmiðið í tillögum stjórnvalda er að fækka sauðfé um 20 prósent og það á að gera með því að greiða bændum fyrir að hætta eða draga úr sauðfjárrækt.
Og til að draga frekar úr framleiðslu verða gæðastýringagreiðslur frystar til tveggja ára frá og með 2018.
Byggðastofnun verður einnig falið að kanna möguleikann á endurfjármögnun eða lengingu lána til að aðstoða unga skuldsetta bændur. Þá verður gerð úttekt á afurðastöðvakerfinu til þess að auka hagræðingu í sauðfjárslátrun og sömuleiðis leitast við að greina raunverulegar birgðir sauðfjárafurða, samsetningu þeirra, verðmæti og eignarhald.
Þorgerður bendir á birgðastaðan af lambakjöti sé ekki meiri núna en í fyrra eða fyrir tveimur árum og það sé því nauðsynlegt að fá betri yfirsýn hvernig hún raunverulega sé. „Og það má ekki heldur gleyma því að ríkið er þegar búið að greiða einu sinni fyrir birgðirnar.“
Þorgerður segir enga uppgjöf felast í því að vilja ekki verja hærri fjárhæðum í markaðsmál íslenska lambakjötsins heldur telji hún mikil sóknarfæri fyrir íslenskt lambakjöt.
Núna sé fyrst og fremst verið að takast á við bráðavanda sauðfjárbænda, kjaraskerðingu upp á tíu prósent í fyrra og 35 prósent í ár. „Við erum taka fyrstu skrefin í að takmarka framleiðsluna, hjálpa bændum út úr greininni og greiða þeim sem vilja fækka við sig á vetrarfóðruðum kindum.“
Verið sé að nálgast vandann á annan hátt. „Við megum ekki gleyma því að það bera allir stjórnmálaflokkar, forystumenn bænda og afurðarstöðvar á þessu endurtekna efni sem er alltaf boðið upp. “ Þetta sé óásættanlegt fyrir bændur og óásættanlegt fyrir neytendur. „Þess vegna verðum við að bregðast við og það með einhverjum öðrum meðölum en gert hefur verið hingað til.“