Már Guðmundsson seðlabankastjóri segir að það sé annarra að meta hvort hann eigi að segja af sér embætti eftir að hæstiréttur felldi úr gildi fimmtán milljóna króna sekt á hendur Samherja. Sjálfur segist hann ekki hafa mikið íhugað afsögn og að hann telji ekki tilefni til afsagnar. Hann telur sig ekki hafa bakað ríkinu bótaskyldu með aðgerðum sínum. Bankanum hafi borið skylda til þess að halda málinu til streitu fyrir dómstólum.
8. nóvember felldi Hæstiréttur úr gildi ákvörðun Seðlabankans um að sekta Samherja um 15 milljónir króna. Frá því dómurinn féll hefur Fréttastofa RÚV reynt að ná tali af seðlabankastjóra en það var ekki fyrr en í dag að viðtalið var veitt.
Hæstiréttur staðfesti með dómi sínum niðurstöðu héraðsdóms.
„Við urðum að láta reyna á það til enda hvort hún stæði vegna þess að við litum öðru vísi á málin og við vorum með lögfræðiálit sem hneig að öðru, þ.e.a.s. þetta bréf frá 2015 væri ekki þess eðlis að það jafngilti niðurfellingu á málinu,“ segir Már.
Héraðsdómur byggði niðurstöðu sína í málinu meðal annars á bréfaskiptum Seðlabankans og Samherja. Fyrirtækið spurði Seðlabankann í apríl 2015 hvort bankinn hefði lokið rannsókn á ætluðum brotum á gjaldeyrislögum. Í svarbréfi tveggja starfsmanna Seðlabankans segir að hann hafi ekki til meðferðar mál gegn Samherja.
Málið sem fór fyrir héraðsdóm og Hæstarétt var lítill hluti af því máli sem Seðlabankinn hafði til rannsóknar gagnvart Samherja.
Er þessi dómur Hæstaréttar, er hann áfellisdómur yfir störfum Seðlabankans?
„Ja, ég veit það ekki. Hann var ekki að taka á öllu málinu í heild. Hann tók til þessa eina máls. Hann var kannski áfellisdómur yfir þessu bréfi. Það hefði átt að orða það öðru vísi,“ segir Már.
Nú hefur verið krafist þinnar afsagnar úr embætti seðlabankastjóra. Er það eitthvað sem þú hefur íhugað?
„Nei, ég hef nú ekki íhugað það mikið. Það er nú alltaf verið að krefjast þess. Ég er með of háa vexti og ég geri hitt og þetta. Það er nú annarra að meta það en ég held að það sé ekkert í þessu máli sem gefi tilefni til þess. Okkar hlutverk var það að sjá til þess að höftin myndu halda. Þau voru mikið að leka,“ segir Már.
Töluverð ummerki hafi verið um það að skilaskylda á gjaldeyri hafi ekki virkað sem skyldi.
„Þá varð það að töluverðum hagnaði hjá þeim sem það stunduðu. Sá hagnaður féll ekki af himnum ofan. Hann kom auðvitað úr vasa almennings sem varð þá að búa við lægra gengi krónunnar en ella. Okkar hlutverk var að hafa eftirlit með gjaldeyrishöftunum og ef það vaknaði grunur um meiri háttar brot, þá var það ekki þannig að þá máttum við kæra, heldur þá áttum við að kæra og það eins fljótt og auðið væri,“ segir Már.
Telur þú að þú hafir prívat og persónulega valdið Samherja tjóni með aðgerðunum og bakað ríkinu bótaskyldu?
„Nei, það tel ég ekki,“ segir Már.
Bréfið sem Már vísar til í viðtalinu er grein úr dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá 2. október sl.:
Stefnandi reisir kröfur málsins m.a. á því að rannsókn málsins hafi verið tilhæfulaus. Á þetta felst dómurinn ekki. Fyrir liggur að starfsemi stefnanda og samstarfsfélaga hans sem rannsókn lögreglu laut að var umfangsmikil og til þess fallin að torvelda stjórnvöldum að ná markmiðum sínum í gjaldeyrismálum og tryggja að skilaskyldur gjaldeyrir skilaði sér til landsins. Þá verður jafnframt að telja að málið hafi við upphaf rannsóknar litið þannig út frá sjónarhóli lögreglu að rökstuddur grunur hafi verið uppi um að starfsemin væri andstæð ákvæðum laga um gjaldeyrismál og reglum settum samkvæmt þeim og jafnframt refsiverð á grundvelli þeirra laga og ákvæða hegningarlaga. Ekki er um það deilt að til grundvallar öllum aðgerðum lögreglu lágu úrskurðir dóms að því leyti sem lög áskilja. Hvað sem líður refsinæmi verknaðar stefnanda vegna skorts á samþykki ráðherra á reglum Seðlabankans mátti stefnanda vera ljóst að hin umfangsmikla starfsemi Aserta væri í andstöðu við markmið ákvæða gjaldeyrislaga nr. 87/1992, svo sem þeim var breytt með lögum nr. 134/2008, og til þess fallin að vekja grunsemdir um refsiverðan verknað og því kallað á viðbrögð af hálfu lögreglu og annarra stjórnvalda.