Sauðfé er farið að drepast vegna öskufalls á Arnardrangi í Landbroti sunnan Kirkjubæjarklausturs.

„Ég er með um 300 kindur og það eru komin 480 lömb. Það er svona 90% af því úti,“ segir Helgi V.Jóhannsson bóndi á Arnardrangi. "Eins og skyggnið er núna er ekkert hægt að gera og ég veit ekki hvort það borgar sig að reyna að koma fénu inn." Þegar fréttamann bar að garði var Helgi búinn að koma út heyrúllum og fersku vatni.

Helgi vinnur jafnframt á Elliheimilinu á Kirkjubæjarklaustri. Hann segist minnast orða gamallar konu sem þar dvaldi eitt sinn og mundi vel Kötlugosið 1918. "Hún sagðist vona það að mín kynslóð þyrfti ekki að upplifa slíkt en ég sé ekki betur en við séum að upplifa það núna," segir Helgi. "Við reynum að herða okkur. Við verðum að reyna það þó þetta sé erfitt."