Valmundur Valmundsson, formaður Sjómannasambands Íslands, segir að sjómönnum og sjómannaforystunni hugnist vel að tekið verði upp eftirlit með veiðum, vinnslu og vigtun afla með myndavélum. Hann leggur þó áherslu á að það verði gert í samráði við Persónuvernd og að fengnu samþykki hennar.

Fiskistofa telur það eðlilegan þátt í skynsamlegri stjórnun sjávarauðlindarinnar að nýta myndavélar við eftirlit. Mikilvægt sé að geta skoðað myndefni þegar upp koma vísbendingar um frávik frá uppgefnum tölum. Samtök atvinnulífsins hafa gagnrýnt þetta mjög og segja frumvarpið ganga allt of langt. Verði einni eftirlitsstofnun veittar auknar heimildir muni aðrar fleiri fylgja í kjölfarið. 

Valmundur var spurður út í myndavélaeftirlit með veiðum og vinnslu í kvöldfréttum í sjónvarpi. Hann sagði að sjómenn og sjómannaforystan hefðu lagt áherslu á að komast fyrir vigtunarsvindl og brottkast. Hann sagði að brottkast væri enn við lýði þó að það hafi minnkað mjög mikið.

Eftirlitið veldur Valmundi ekki áhyggjum. „Við erum með eftirlit með öllum andskotanum, fyrirgefið orðbragðið, bara hérna fyrir ofan okkur eru myndavélar sem eru að taka myndir af okkur núna,“ sagði Valmundur í beinni útsendingu frá Reykjavíkurhöfn. „Það er ekki verið að taka myndir inni í klefa hjá körlunum. Það er verið að taka myndir af vinnslunni, ef þetta eru skipin, og í landi er verið að taka mynd af vigtunum og að menn fari með hráefnið eins og á að gera eftir reglum.“ Hann sagði að sér og sínum mönnum hugnaðist vel eftirlit með myndavélum. „Með því fororði að persónuvernd samþykki það sem verið er gera. Við höfum alltaf lagt áherslu á að það sé þannig.“

Aðspurður hvaða aðrar leiðir væri hægt að fara svaraði Valmundur. „Það er búið að reyna margt í áranna rás við að komast fyrir þetta, meðal annars að búa öðruvísi um hnútana í vigtarmálum. Það hefur ekki tekist. Það hefur ekki gengið upp. Ef þetta er leiðin sem við verðum að fara til að ná utan um þetta þá verður svo að vera held ég.“