Sársauki einkennir nýjustu plötu Arca

03.05.2017 - 10:15
Venesúelski tónlistarmaðurinn Arca á að baki þéttan feril þrátt fyrir ungan aldur en hann vann að gerð Yeezus plötu Kanye West, plötum FKA Twigs, Kelelu og nýjustu plötu Bjarkar, Vulnicura. Meðfram því hefur hann sent frá sér nokkrar blandspólur og þrjár breiðskífur, nú síðast breiðskífuna Arca sem kom út 7. apríl.

Platan hefur hlotið afburðadóma og hylli flestra tónlistagagnrýnenda en Pitchfork gefur henni 8,5 í einkunn, hún fær 8,8 á metacritic sem safnar dómum allra gagnrýnenda og reiknar meðaltalseinkunn, og tónlistargagnrýnandi Guardian, Rachel Aroesti, gefur henni fimm stjörnur af fimm.

Björk hvatti til söngs

Þetta er í fyrsta sinn sem Arca syngur yfir tónlist sína og má því nú hlýða á spænskumælandi undurfagra rödd hans á nýju plötunni. Í nýlegu viðtali við tímaritið I-D segir hann frá því að það sé Björk að þakka að hann sé farinn að syngja en tónlistarkonan á að hafa hvatt hann til þess að láta rödd sína heyrast.

Tónlistarmyndbönd Arca hafa lengi vakið athygli en í samstarfi við listamanninn Jesse Kanda leikur hann sér með kynvitund og kynhneigð sína í mynböndunum. Í myndbandi lagsins Anoche má sjá Arca berleggja í brúnu leður korseletti, þveng og svörtum hælaskóm. 

Arca, sem heitir réttu nafni Alejandro Ghersi, leyndi samkynhneigð sinni er hann bjó í Venesúela. Það var ekki fyrr en hann flutti til New York-borgar og hóf tónlistarferil þar árið 2012 sem hann horfðist í augu við kynhneigð sína og kom út úr skápnum. Arca segir í viðtali við The Guardian að mikil orka hafi farið í það að fela samkynheigðina og klæðaburð sem krakki enda átti hann í hættu á barsmíðum ef hann klæddi sig eftir eigin smekk. Í dag passi hann hins vegar upp á að fagna því sem hann eitt sinn þurfti að fela.

Mál sársaukans skilja allir

Hljómur breiðskífunnar er gæddur sársauka, hann er dimmur og tregafullur og það er hrein rödd hans einnig. Í byrjunarlagi plötunnar „Piel“ grátbiður hann um að láta taka af sér húð sína. Piel verður síðan að næsta lagi plötunnar „Anoche“, en þar syrgir Arca fjarverandi elskhuga. Tár, tilfinningarík óp, og nærvera sem er fær um að ferðast úr hljómflutningstækjunum og inn í persónulegt rými hlustenda. Þrátt fyrir spænska texta skilar sársaukinn sér til þeirra sem ekki þekkja tungumálið. Mál sársaukans skilja allir.

Blóð, sviti, sár, tár, nærmyndir af mörðu, ef ekki veiku andliti, svipur, sársauki, „taktu í burtu húð mína“. Kona, karl og allt þar á milli. Arca fer með hlustendur í einhvers konar kaþarsis, fær tilfinningalega útrás á plötu sinni. Hann leikur sér með hugmyndir okkar um fegurð og ljótleika. Glitrandi þvengur og blóðugar rasskinnar, tandurhreinn undurfagur karlmannslíkami en í sárum. Hvítklæddur karlmannlegur nautabani öskrandi af innri ólgu og sársauka.

Hljómur Arca fer með okkur bæði aftur í tímann, aftur til fornra tíma, en á sama tíma fer hann með okkur eitthvert allt annað inn í hliðstæðann veruleika. Hvert sem hann fer þó með okkur gerir hann það í líki Arca, kistu, öryggisgeymslu, Örkin hans Nóa, Sáttmálsörkin, kistill, örk. Arca, hátíðlegt ílát, tómt þar til það er fyllt þeirri merkingu sem hver og einn leggur í það. 

Lestin á Rás 1 fjallaði um nýjustu plötu Arca.

Mynd með færslu
Anna Gyða Sigurgísladóttir
dagskrárgerðarmaður
Lestin
Þessi þáttur er í hlaðvarpi