Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hitti leiðtoga breska Verkamannaflokksins, Jeremy Corbyn, í dag. Katrín segir tilgang þessa fundar hafa verið að ræða Brexit og umhverfismál, en einnig stöðu vinstriflokka í Evrópu. Corbyn segir að samskiptin við Íslendinga séu mjög góð, en að hann vilji strykja þau enn frekar.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra gerir víðreist á Bretlandseyjum þessa dagana. Í gær var hún í Edinborg og hitti Nicolu Sturgeon. Í dag kom hún svo til Lundúna og hitti Jeremy Corbyn leiðtoga Verkamannaflokksins. Heimsókn frá Íslandi var kannski kærkomið frí fyrir Corbyn frá Brexit-þófinu í Bretlandi. Og þó, auðvitað ræddu leiðtogarnir brexit - fyrirhugaða útgöngu Breta úr evrópusambandinu.
„Tilgangurinn er að tryggja að við séum í tollabandalagi við Evrópu, að við höfum aðgang að evrópskum markaði,“ segir Corbyn. „Að kraftur sé í samskiptunum, sem þýðir að viðmið og reglur hjá okkur séu ekki eftirbátur ESB. Ég persónulega vil setja markið hærra í umhverfis- og neytendamálum og réttindum verkafólks. Málið snýst um að hafa gagnleg og góð tengsl við Evrópu. Og augljóslega eru samskiptin við Íslendinga hreint ágæt og við viljum að þau verði jafnvel betri.“
May á morgun
„Við vorum fyrst og fremst að ræða um stóru áskoranirnar fyrir ekki síst vinstri flokka eins og okkar og vorum að ræða það sérstaklega loftslagsbreytingar og jöfnuð og félagslegt réttlæti. Það var svona stóri hlutinn af fundinum,“ segir Katrín. „Auðvitað barst ýmislegt annað í tal eins og Brexit og fleira en fyrst og fremst voru það loftslagsmálin og síðan uppbygging félagslegra innviða sem voru efst á okkar dagskrá.“
Og svo eru umhverfismálin skyndilega stórmál í Bretlandi
„Við þurfum að taka á þessu af mikilli alvöru,“ segir Corbyn. „Frá því árið 1970, frá því fyrir 49 árum, hafa sextíu prósent tegunda jarðar orðið útdauðar. Á fimmtíu árum; við getum ekki haldið áfram að rústa náttúrunni án þess að það hafi afleiðingar fyrir okkur öll.“
Á morgun liggur leiðin í Downing stræti tíu þar sem forsætisráðherra hittir Theresu May forsætisráðherra Breta.