Skólastjóra Grunnskólans á Suðureyri svíður óréttlæti í garð barna sem ekki hafa íslensku að móðurmáli þegar kemur að samræmdum prófum. Hún segir menningarlegan mismun innbyggðan í matskerfi Menntamálastofnunnar. Samræmd próf mæli það sem sé auðveldast að mæla en ekki endilega það sem sé gagnlegast að vita.

Jóna Benediktsdóttir hefur starfað við kennslu í aldarfjórðung og er skólastjóri á Suðureyri við Súgandafjörð. Hún var í viðtali í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun. Eftir að hafa setið yfir í samræmdu prófi í sjöunda bekk þar sem sex nemendur þreyttu próf og aðeins einn þeirra hafði alfarið íslenskan móðurmálsbakgrunn varð hún hugsi yfir því hvernig prófið var sett upp.

Neikvæð áhrif á sjálfsmynd

Henni fannst margt af því sem nemendur þurftu að leysa í prófinu krefjast þess að þeir hafi góðan móðurmálsbakgrunn í íslensku. Tekið sé mið af íslenskri heimilismenningu og mikið sé um orðasambönd sem erfitt sé að átta sig á, hafi nemandinn ekki þann bakgrunn. „Það sem ég hugsaði þegar ég var að horfa á þau brasa við þetta, og þau áttu náttúrulega ekki séns í þetta, það er hvernig það að vera metinn eftir ósanngjörnun mælikvarða hefur margvísleg neikvæð áhrif á sjálfsmyndina,“ sagði Jóna. 

Hún sagði margt hafa breyst. Það sé langt síðan að öll börn í grunnskólum á Íslandi hafi átt íslenska foreldra. „Þá er ég svo hissa á því að eftir öll þessi ár værum við í rauninni ennþá með svona innbyggðan menningarlegan mismun í matskerfi opinberrar stofnunnar.“

Erum ekki með neina samræmda nemendur

Hún ákvað að senda bréf á Menntamálastofnun þar sem hún fór fram á að búið verði til annarskonar próf fyrir nemendur sem hafa fjölbreyttan móðurmálsbakgrunn. „Menntamálastofnun svaraði um hæl og sagði að þau hefðu verið að velta þessum möguleika fyrir sér en hefðu ekki komið þessu í framkvæmd. Þau báru svo sem við fjárskorti og einhverju slíku,“ sagði Jóna.  

Jóna tekur undir þau sjónarmið að samræmd próf séu jafnvel barn síns tíma. Í samræmdum prófum í íslensku sé aðeins verið að mæla lesskilining og málnotkun. Tungumálakunnátta sé flóknari en það. „Sama á við um stærðfræði. Það er verið að mæla það sem auðveldast er að mæla, sem er kannski ekki endilega það sem er gagnlegast að vita. Við erum ekki með neina samræmda nemendur svo samræmd próf skjóta skökku við.“