„Það liggur fyrir að við þurfum að fara í miklar fjárfestingar í innviðum og koma fjármununum sem sitja í Framkvæmdasjóði ferðamannastaða í umferð. Fjölmörg verkefni á sviði fjármögnunar bíða úrlausnar eða greiningar stjórnstöðvarinnar,“ segir Grímur Sæmundsen, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar.
Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, segir fjármögnunina ekki vera aðalmálið. Auknar fjárveitingar í Framkvæmdasjóð ferðamála hafi litlu skilað. Aukin samhæfing sé forsenda þess að fjármagn nýtist sem best. Rætt er nánar við Ragnheiði og Grím í Spegli dagsins.
Stjórnstöð ferðamála
Öll ráðuneyti koma að ferðaþjónustu með einum eða öðrum hætti. Lagaumgjörðin er flókin, ábyrgðin er víða óljós og skipulag greinarinnar óskýrt. Til að breyta þessu hafa stjórnvöld, Samband íslenskra sveitarfélaga og Samtök ferðaþjónustunnar ákveðið að koma á fót stjórnstöð ferðamála, sem starfa á til ársins 2020. Hún á að samræma vinnu þvert á ráðuneyti og stofnanir, forgangsraða verkefnum og tryggja framkvæmd þeirra.