Samgönguráðherrar ríkja Evrópusambandsins ræddu ástandið í flugsamgöngum á fjarfundi í dag. Ráðherrarnir munu ræða fjárhagsaðstoð til evrópskra flugfélaga á næstu dögum.
Í tilkynningu frá formanni samgöngunefndar Evrópu sem gerð var opinber síðdegis kemur fram, að samgönguráðherrar Evrópusambandsins hafi ákveðið að leyfa flug á stærra svæði yfir Evrópu frá og með morgundeginum. Þeir fullvissuðu farþega jafnframt um að engin áhætta yrði tekin með öryggi þeirra. Sum svæði yrðu alveg lokuð áfram en önnur yrðu opnuð en undir sérstöku eftirliti.
Evrópska flugstjórnarstofnunin, Eurocontrol, sagðist líka vera bjartsýn á að ástandið í lofthjúpinum færi batnandi. Nokkrir flugvellir í Evrópu hafa verið opnaðir í dag og fleiri verða opnaðir í kvöld og á morgun, þar á meðal Schipol flugvöllur í Amsterdam, sem verður opnaður í kvöld. Flugmálayfirvöld á Bretlandi, Frakklandi, Belgíu og Þýskalandi búast jafnframt við að lofthelgi þeirra verði opnuð að hluta til eða að fullu á morgun.
Samgönguráðherrarnir ætla á næstu dögum að ræða með hvaða hætti verði hægt að forða evrópskum flugfélögum frá gjaldþroti. Þau hafa orðið fyrir gríðarlegu tapi undanfarna fimm daga og er áætlað að það nemi allt að 130 milljörðum íslenskra króna. Mörg flugfélög hafa staðið illa fjárhagslega undanfarin misseri og máttu illa við frekara tapi. Þá er ótalið það tjón sem lömun flugsamganga í fimm daga hefur valdið öðrum atvinnugreinum.