Gilbert Baker heitir maðurinn sem hannaði fána hinsegin-baráttunnar, hinn íkoníska regnbogafána sem hefur orðið að tákni fyrir samfélög hinsegin fólks um allan heim. Baker dó 30. mars, 65 ára gamall, og samfélag hinsegin fólks syrgir hann.

„Það er eitthvað við regnbogann sem er einstaklega fallegt og hreyfir við okkur öllum,“ segir María Helga Guðmundsdóttir, formaður Samtakanna 78. „Þetta er náttúrufyrirbæri sem að birtist þegar sólin kemur fram á himinninn eftir rigninguna. Ég held að það sé ekkert samfélag þar sem regnboginn er neikvætt gildishlaðinn. Spurð út í mikilvægi regnbogafánans segir hún: „Það er mjög mikilvægt að hafa sameiningartákn. Þau geta verið fleiri en eitt, en það að hafa stóra táknið, sem rúmar okkur öll, í öllum okkar fjölbreytileika, það er mjög mikilvægt.“

Saga fánans

Baker hafði sinnt herskyldu í rúm tvö ár en flutti til San Fransisco árið 1972, eftir að hafa verið leystur frá þeim skyldum í virðingarskini. Áttundi áratugurinn í San Fransisco einkenndist af frelsun hinsegin samfélagsins. Litríkt Castro-stræti, kosningabarátta, sem og morðið á stjórnmálamanninum Harvey Milk, aukin spenna á milli samkynhneigðra og yfirvalda. Í San Fransisco var sterkt samfélag samkynhneigðra að taka á sig mynd en enn ekki komið á sjónarsviðið neitt eitt sameiningartákn, enda baráttan ekki kerfisbundið samrýmd á alheimsvísu.

Saga fánans er tilviljunarkenndari en maður hefði haldið. Baker var sjálflærður í saumaskap og stundaði það að sauma ýmis konar borða fyrir baráttu hinsegin fólks og fyrir mótmæli gegn stríði. Hann saumaði t.d. borða fyrir kosningabaráttu stjórnmálamannsins Harveys Milks. Milk starfaði í borgarráði San Fransisco-borgar árið 1978 og var fyrsti samkynhneigði maðurinn í bandarískum stjórnmálum sem sagði opinskátt frá kynhneigð sinni. Hann var þó myrtur tíu mánuðum eftir borgarráðskosningarnar. 

Í heimildarmyndinni Beyond Gay: The Politics of Pride, eða Handan samkynhneigðar: Pólitík hinsegingöngunnar, segir Baker sjálfur frá aðdraganda fánans en þetta byrjaði allt með því að um miðbik áttunda áratugarins saumar hann saman nokkra efnisbúta sem lágu til á heimili hans og tók hann afraksturinn með sér í hinsegin mótmælagöngu þann dag.  Árið 1978 ákvað hinsegin samfélagið síðan að finna sér sameiningartákn og varð þá fáni Gilberts Bakers fyrir valinu.

Verk Bakers víða

Verk Bakers eru nú varðveitt í söfnum víðs vegar um heiminn. Saumavélin sem hann notaði til að sauma fyrsta regnbogafánann er á sögusafni hinsegin samfélagsins í San Fransisco. Nútíma listasafnið MoMA í New York-borg á sitt eintak af regnbogafánanum í hönnunarsafni sínu. Safnstjórar þar telja kennimerkið jafn mikilvægt og önnur alþjóðleg tákn eins og kennimerki Creative Commons og tákn endurvinnslu.

Hilmar Hildar Magnússon, fyrrverandi formaður Samtakanna 78, María Helga Guðmundsdóttir, formaður Samtakanna 78 og Sólveig Rós, fræðslufulltrúi Samtakanna 78 ræddu um hlutverk, mikilvægi og þýðingu regnbogafánans innan hinsegin baráttunnar í Lestinni á Rás 1.