Tónskáldið Herdís Stefánsdóttir bætti all rækilega á ferilskrána á síðustu mánuðum þegar hún var ráðin til að semja tónlistina fyrir Hollywood-myndina The Sun is Also a Star, sem framleidd er af Warner Bros. Hún átti þó enn eftir að bæta um betur, því meðan á ferlinu stóð fæddist henni dóttir.
Herdís Stefánsdóttir hefur komið víða við á stuttum ferli. Hún er annar hluti rafpopp tvíeykisins East of My Youth og starfaði fyrir Golden Globe-verðlaunahafann Jóhann Jóhannsson heitinn þegar hann vann að kvikmyndinni Arrival. Eftir að hafa nælt sér í meistaragráðu í kvikmyndatónsmíðum og samið tónlist við nokkrar stuttmyndir bauðst henni að semja fyrir kvikmyndina South Mountain, sem hún gerði, en sú verður frumsýnd á SXSW-kvikmyndahátíðinni í næsta mánuði.
Kvikmyndin The Sun is also a Star, sem frumsýnd verður 17. maí, er hins vegar á allt annarri stærðargráðu. Bókin, sem er ástarsaga ætluð ungu fólki, hlaut góða dóma gagnrýnenda, var tilnefnd til fjölda verðlauna og komst á topp metsölulista New York Times. Því er óhætt að gera að því skóna að kvikmyndin eigi eftir að vekja nokkra athygli og verkefnið var af því tagi sem Herdís hafði aldrei ímyndað sér að fá svo snemma á ferlinum.
„Ég sendi inn „portfolio" með tónlist eftir mig (...) og það er auðvitað mjög langsótt því á þessum tíma síðasta vor hafði ég ekki ennþá gert kvikmynd í fullri lengd," segir Herdís. „Og svo nokkrum mánuðum seinna þá sendir [umboðsmaðurinn minn] mér email og segir: Heyrðu það er svo skrítið ég er alltaf að fá hérna meldingu um að það sé verið að hlusta á tónlistina þína hjá Warner Bros., ég skil ekkert í þessu."
Herdís kippti sér lítið upp við þær fregnir, hugsaði bara með sér að líklega væri einhver þar innanborðs sem kynni persónulega að meta tónlistina. Nokkrum vikum seinna hringir umboðsmaðurinn hins vegar aftur: „Herdís, þú trúir þessu ekki, en Warner Bros. voru að hringja í mig og spyrja hvort þú værir laus."
Hér er ráð að staldra við og bæta aðeins við söguna. Herdís var nefnilega ólétt, komin 30 vikur á leið, og henni var ekki skemmt.
„Bara nei, ertu ekki að grínast? Hollywood að banka á dyrnar hjá mér þegar ég er komin 30 vikur á leið og get auðvitað ekki unnið," segir Herdís. Umboðsmaðurinn ræddi aftur við Warner Bros. Hún sagðist hafa upplýst þá um stöðu mála, Herdís væri einfaldlega að fara að eignast barn. Þeir svöruðu um hæl „Já, en er hún laus?"
„Scoraði" Hollywood-mynd kasólétt í eldhúsinu
Herdís var andvaka nóttina eftir, hvernig ætti hún að geta klárað Hollywood-mynd á átta vikum? Þegar upp var staðið gat hún þó ekki annað en þekkst boðið. Starfið reyndist draumi líkast. Leikstjóri myndarinnar, Russo-Young, á sjálf tveggja ára barn og hafði því mikinn skilning á stöðu Herdísar auk þess sem þær tengdu vel við hvor aðra sem listamenn.
Róðurinn var þó þungur undir lokin og tekur Herdís sérstaklega fram að hún hafi fengið ómetanlega hjálp frá aðstoðarmanni sínum Kjartani Hólm og manninum sínum, Dustin O'Halloran en hann er sjálfur kvikmyndatónskáld með Óskarstilnefningu í farteskinu. Þau Herdís eru búsett í Los Angeles en síðustu vikurnar unnu þau frá Íslandi og öll tónlistin í myndinni var tekin upp í gegnum Skype. Myndin sem Herdís dregur upp er nánast súrrealísk en eins og hún orðar það „scoraði" hún Hollywood-kvikmynd, kasólétt í eldhúsinu á Garðastrætinu.
„Á settum degi tók ég smá dramakast - hingað og ekki lengra, ég er hætt!" segir Herdís. Allt hafði gengið smurt fyrir sig, nema lokasena myndarinnar, og Herdís var einfaldlega tilbúin að gefast upp. Það gerði hún sem betur fer ekki, heldur tók sér barneignaleyfi. Dóttir hennar, kom í heiminn tíu dögum síðar og tíu dögum eftir fæðinguna var Herdís aftur mætt í vinnuna.
Verkefnin voru kannski gjörólík, eitt persónulegt og annað atvinnutengt, en þau voru hvort á sínu sviði þau stærstu sem Herdís hafði nokkurn tíma þurft að takast á við. Það var erfitt á köflum, en þau fóru þó betur saman en hún átti von á.
„Mér fannst það að einhverju leyti hjálpa mér að fókusera af því að það var eitthvað sem var stærra og mikilvægara í mínu lífi en Hollywood-mynd, þannig að allt einhvern veginn - allt aukadæmið sem maður getur einhvern veginn leyft sér að fara að pæla í og hafa áhyggjur af - ég leyfði mér ekki að fara þangað. Ég náði einhvern veginn leiserfókus og bara vann, og var auðvitað tilfinningarík líka sem hjálpaði því þetta var dramamynd. Þannig að einhverju leyti fannst mér óléttan gera þetta ferli magnaðra og kannski fljótlegra."
Sóló verkefni án tímaramma
Næst ætlar Herdís að einbeita sér að sínu fyrsta sóló-verkefni sem verður poppskotið að hennar sögn en einnig tilraunakenndara en hennar fyrri verkefni.
„Ég er búin að ákveða það að setja enga tímapressu á mig. Þannig að ég er í fyrsta skipti svolítið að leyfa mér að vinna þetta algjörlega eftir mínu höfði og ég er að reyna að gera sem allra mest sjálf, í pródúseringu og upptöku," segir hún.
„Mér finnst það spennandi en líka ógnvekjandi - að geta ekki falið sig á bakvið neinn annan."