Samanburður við aðra og streita er ástæða þess að íslenskir unglingar eru daprari en áður og daprari en unglingar annars staðar á Norðurlöndunum. Þetta segja nemendur í Menntaskólanum við Sund. Rannsakandi segir vinnudag unglinga háskalega langan.

Íslenskir unglingar hafa aldrei verið jafn daprir og nú, samkvæmt nýrri rannsókn. Depurð í þeirra hópi er algengari en hjá unglingum annars staðar á Norðurlöndunum ef Svíþjóð er undanskilin. Fréttastofa kíkti inn í Menntaskólann við Sund í Reykjavík. Fæstum unglingum kom á óvart að depurð væri algeng.

„Nei, eiginlega ekki bara út af því að það er svo mikið af samfélagsmiðlum hérna á Íslandi og kannski það eru allir meira að hugsa um að fá „like“ og „follow“ en að vera ánægðari,“ segir Alexander Knudsen.

„Kemur mér ekkert á óvart. Líka mikið stress í skóla,“ segir Arnar Leó Kristinsson. 

„Veistu það það kemur mér ekkert á óvart. Bæði félaglífið og veðrið og allt spilar mikið inn í þetta. Maður er ekkert að fara út í þessu veðri að leika sér með krökkunum,“ segir Margrét Bachmann.

„Það er mikið af krökkum í tölvunni eitt heima,“ segir Dagur Óli Sigurðsson.

Er þetta eitthvað sem þú verður vör við meðal þinna jafnaldra að það séu margir daprir?

„Já, alveg nokkrir, þó nokkrir,“ segir Unnur Eva Ernudóttir. 

„Maður tekur kannski eftir því en ég pæli kannski ekki mjög mikið í því,“ segir Emma Karen Kjartansdóttir.

„Jú, jú, kannski meiri pressa út af samfélagsmiðlum, meiri samanburður,“ segir Hrafnhildur Hólm Guðnadóttir.

Magrét segir að álagið sé mikið á unglingum. „Þetta er lítið land sko. Þú veist hann mun vita hvað ég er að gera á eftir í gegnum vini sína, þetta fréttist allt á milli,“ segir Margrét.

„Pressa að vera flottur á Instagram á ströndinni, massaður og flottur og sætur,“ segir Alexander.

Margrét bætir við: „Ég hef alveg frétt af því að fólk vill ekki fara út úr húsi út af kvíða og beila á böll.“

„Nei, mér finnst það ekki þegar ég tala við þau en ég veit það ekki, kannski eru það margir án þess að við vitum það,“ segir Auður Elísabet Ólafsdóttir.

Ársæll Arnarsson prófessor á Menntavísindasviði Háskóla Íslands stýrði rannsókninni. 

„Það er auðvitað mikið álag á unglingum í dag. Þau eru í skólanum allan daginn og síðan taka við tómstundir. Þau eru í keppnisíþróttum, þau eru að keppast í sínum tómstundum oft. Síðan tekur við heimanám líka. Þannig að þessir krakkar eru oft með mjög langan vinnudag. Það auðvitað er mjög varhugavert,“ segir Ársæll.