Braggamálið svokallaða er ekki til meðferðar hjá embætti héraðssaksóknara. Þetta staðfestir Ólafur Þór Hauksson, hérðassaksóknari, við fréttastofu en embættið hefur frumkvæðisrannsóknarheimild í fjármuna- og efnahagsbrotamálum.
„Fullyrðingar um saknæmi hafa komið fram hjá fulltrúum i borgarstjórn og er þar til meðferðar,“ skrifar ÓIafur Þór í svari sínu. „Innri endurskoðun borgarinnar er eftirlitsaðili með fjármálum borgarinnar og þaðan hefur ekki komið vísun til embættisins.“
Vigdís Hauksdóttir, fulltrúi Miðflokksins, og Kolbrún Baldursdóttir, fulltrúi Flokks fólksins, hafa lagt fram tillögu í borgarstjórn um að skýrsla innri endurskoðunar á braggamálinu verði send héraðssaksóknara. Vigdís hefur haldið því fram að í skýrslunni segi af refsiverðri háttsemi og misferli með opinbert fé.
Innri endurskoðun gat sett málið í farveg refsimáls eftir að skýrslan var gefin út en sá ekki tilefni til þess. Meirihlutinn í borgarstjórn hefur þvertekið fyrir það að eitthvað saknæmt komi fram í skýrslunni og segja minnihlutann reyna að afvegaleiða umræðuna með upphrópunum um hugsanlegt lögbrot.
Þá hefur borgarlögmaður sagst ekki vera í aðstöðu til þess að leggja mat á það hvort saknæm háttsemi kunni að hafa átt sér stað í tengslum við málið. Engin slík athugun hafi farið fram og ekki hún sé ekki fyrirhuguð af hálfu borgarlögmanns.
Sérstök framkvæmd
Borgarfulltrúar tókust á í Silfrinu í Sjónvarpinu í dag. Heiða Björk Hilmisdóttir, fulltrúi Samfylkingarinnar, sagði Heiða að í skýrslunni hafi verið leitt í ljós að ekkert misferli hafi átt sér stað í tengslum við framkvæmdirnar. „Þetta er sérstök framkvæmd. Þetta er fráviksframkvæmd,“ segir Heiða. „Þetta á sér sögu alveg aftur til ársins 2010 þegar Sjálfstæðismenn voru í meirihluta og vildu ekki rífa braggann. Þá var ákveðið að reyna að finna fyrir hann önnur not. Það fannst árið 2015 og var samþykkt af öllum borgarfulltrúum.“
Eftir að skýrsla innri endurskoðunar var kynnt var stofnaður starfshópur sem á að rýna í niðurstöður skýrslunnar. Auk Dags B. Eggertssonar borgarstjóra og Þórdísar Lóu Þórhallsdóttur, formanns borgarráðs, átti Hildur Björnsdóttir, fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í minnihlutanum, að taka sæti í starfshópnum. Hildur vék hins vegar úr hópnum vegna þess að hún telur Dag ekki geta verið „dómara í eigin sök“.
„Það er rökvilla að borgarstjóri, sem er með tvo hatta – hann er bæði framkvæmdastjóri borgarinnar og pólitískur oddviti – að hann ætli að taka á málinu það bara gengur ekki upp. Þess vegna gátum við ekki tekið þátt í því,“ sagði Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins, í Silfrinu í dag, þegar hann var spurður hvers vegna minnihlutinn vilji ekki eiga fulltrúa í hópnum.
Segir lög hafa verið brotin
Vigdís Hauksdóttir hefur sagt að borgarstjórn þurfi að greiða atkvæði um hvort vísi eigi skýrslu innri endurskoðunar til héraðssaksóknara áður en ákveðið verði hvort fulltrúar í minnihluta borgarstjórnar kæri málið sjálfir til lögreglu. Tillaga þess efnis liggur nú fyrir borgarstjórn og verður hún tekin fyrir á fundi á þriðjudag.
Spurð hvort hún vantreysti innri endurskoðun segir Vigdís að hún geri það ekki en mörgu sé ósvarað í Braggaskýrslunni. „Þessi skýrsla er góð eins og hún er. Það er mörgu ósvarað þarna. Ég talaði alltaf um að það ætti að vera óháður aðili sem færi í þessa rannsókn. Það er augljóst mál að það er þörf á því.“
„Það er nefnilega ýmislegt sem kemur ekki fram í skýrslunni. Það var ekki farið í að rekja reikningana. Hvað er á bak við reikningana? Voru verk á bak við reikningana? Hverslags færslur eru þetta sem liggja til grundvallar þessum 425 milljónum?“ spurði Vigdís og hélt áfram:
„Borgarstjórn var blekkt árið 2017 varðandi kostnað við braggann. Borgarstjórnar var blekkt núna í ágúst 2018 varðandi það hvað vantar mikið fé þarna inn. Því eftir stendur líka, sem er klárt og skýrt brot á sveitarstjórnarlögum, að það á eftir að fá heimildir fyrir 73 milljónum sem þegar hafa verið greiddar út. Þannig að það stendur ekki steinn yfir steini í þessu verkefni. Þarna erum við að tala um, að mínu mati, refsiverð brot. Það verður að fleyta þessari skýrslu áfram.“
Popúlismi og rangfærslur
Dóra Björt Guðjónsdóttir, oddviti Pírata í borgarstjórn, segir minnihlutann hins vegar vera að horfa í ranga hluti og afvegaleiða umræðuna með yfirlýsingum að lögbrot hafi verið framin. „Ég vil bara fyrst benda á að fyrir okkur þá er þetta mjög alvarlegt mál,“ sagði Dóra Björt í Silfrinu. „Innri endurskoðun fór í þetta verkefni með misferlisgleraugu að vopni til þess einmitt að skoða hvort um misferli eða refsivert athæfi hafi verið að ræða.“
„Ég var glöð yfir því verkefni, fannst það mikilvægt að það yrði gert af heilum hug og almennilega,“ sagði Dóra Björt. „Það var gert og það voru engar sannanir um að refsivert athæfi hafi verið að ræða. Því er þessi tillaga sem liggur fyrir næsta borgarstjórnarfundi að vísa þessu til saksóknara bara undarleg. Þetta er bara dæmi um það að minnihlutinn heldur áfram að tefja umræðuna með popúlisma og rangfærslum.“