Mjög slæmt er að skattayfirvöld taki ekki lengur þátt í vinnustaðaeftirliti með verkalýðsfélögum, að mati Adams Kára Helgasonar, vinnustaðaeftirlitsmanns hjá Rafiðnaðarsambandinu. Fyrir nokkrum árum hafi verkalýðsfélögin, ásamt Vinnueftirliti, Vinnumálastofnun og skattinum farið reglulega í heimsóknir á vinnustaði. Það eftirlit hafi verið mun skilvirkara en það er í dag.

„Síðan því miður þá gerðist eitthvað og skatturinn dró sig úr samstarfinu og en fer víst enn þá í sínar eftirlitsferðir en bara ekki með okkur og Vinnueftirlitið heldur áfram með okkur og heldur áfram þegar þeir geta og Vinnumálastofnun hefur því miður ekki mannskap til að fara út,“ sagði Adam Kári í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun.

Stundum óljóst hvað verður um ábendingar

Þegar verkalýðshreyfingin, skatturinn og hinar stofnanirnar áttu í samstarfi um vinnustaðaeftirlit hafi hópurinn hist einu sinni í viku og skipulagt ferðirnar. Það hafi verið mjög skilvirkt. Nú komi eftirlitsmenn verkalýðshreyfingarinnar upplýsingum áfram til stofnana til að hægt sé að bregðast við. Stundum frétta þeir af því að eitthvað hafi verið gert í viðkomandi máli en stundum viti þeir ekki neitt og voni það besta. 

Adam Kári segir að verkalýðsfélögin hafi fengið miklar og dýrmætar upplýsingar frá skattinum þegar samstarfið stóð yfir. Þegar allar þessar stofnanir og verkalýðshreyfingin deili upplýsingum um vinnuveitendur og aðbúnað sé eftirlitið mun skilvirkara. 

Skatturinn er „sleggja“ í eftirlitinu

„Skatturinn er góð sleggja og kemur mönnum í skilning um það að það er ekki í lagi að vera með allt niður um sig,“ segir hann. „Þessi sleggja gaf okkur líka mikið af upplýsingum að vinna með og hvernig tengslin voru á milli fyrirtækja og svoleiðis.“

Sagt var því í fréttum fyrir helgi að grunur væri um að brotið hefði verið á réttindum rúmenskra verkamanna hjá fyrirtækinu Menn í vinnu. Þeir bjuggu við ömurlegar aðstæður, jafnvel tíu saman í herbergi og greiddu fyrir það 50.000 krónur á mánuði. Sú upphæð var dregin af launum þeirra sem þeir segja að séu undir lágmarkstaxta. Adam Kári segir að brot á erlendum starfsmönnum séu skilvirkari hjá þeim sem ætli sér að brjóta lög og reglur. Starfsemi sem þessi sé nokkurs konar „viðskipta-módel“ hjá eigendum þeirra fyrirtækja sem hvað mest brjóta á réttindum starfsmanna. Mannskapurinn sé féflettur og hópnum skipt út á þriggja til sex mánaða fresti og fólk fái ekki síðasta launaseðilinn sinn. „Við erum að sjá þetta mynstur trekk í trekk í trekk,“ segir Adam Kári.

Algengt er að rúmenskir verkamenn komi hingað til lands að vinna um þessar mundir. Áður voru Pólverjar, Litháar og Lettar fjölmennastir erlendra verkamanna hér á landi. Adam Kári segir að hægt sé að greiða Rúmenum lægri laun en til dæmis Pólverjum. Þeir séu mjög berskjaldaðir fyrir misnotkun. Pólverjar, aftur á móti, séu mjög meðvitaðir um réttindi sín og hafi stofnað spjallsíður á Facebook þar sem þeir fræða hver annan. 

Lokuðu þremur vinnustöðum í desember

Vinnustaðaeftirlitið, ásamt Vinnueftirlitinu, fór í þrjár ferðir á vinnustaði í desember og var vinnustöðum lokað eftir allar heimsóknirnar. Á einum staðnum var verið að vinna við hótel í miðbæ Reykjavíkur. Ekkert klósett var á staðnum, heldur á Skólavörðustíg. Þegar það klósett var skoðað kom í ljós að aðstæður þar voru algjörlega óviðunandi. Framkvæmdir voru einnig stöðvaðar í Breiðholti í desember þar sem vinnupallar voru lélegir, allt í rusli og þar var kranamaður sem ekki gat sýnt fram á að hann hefði réttindi til að stjórna krana.