Símon Sigvaldason dómari og formaður dómstólaráðs segir að kynferðisbrot hafi þá sérstöðu, miðað við aðrar tegundir sakamála, að oft á tíðum sé bara fyrir að fara framburði sakbornings og brotaþola. „Í 100 prósent tilvika neitar sakborningur sök um kynferðisbrot. Þau eru afar sjaldgæf í réttarsögunni tilvik þar sem menn viðurkenna nauðgun.“
Fleiri sönnunargögn geta verið til staðar sem geta haft mikla þýðingu við málsmeðferð. „Þau geta verið vissulega æði mörg, allt frá því að vera skýrslur sérfræðinga eins og þeirra sem koma frá neyðarmóttökunni. Það eru dæmigerð sönnunargögn í kynferðisbrotamálum. Það geta verið skýrslur vitna sem koma með einhverjum hætti að máli en svo eru mikilvægustu sönnunargögnin skýrslur aðilanna sjálfra, þ.e.a.s. sakborningsins og brotaþolans.“
Gagnrýni á kerfið skiljanleg
Opinber kynferðisbrotamál leiða afar sjaldan til sakfellingar. „Þetta eru afskaplega erfið mál í mörgu tilliti. Við höfum sagt það, að ef horft er á þessi mál út frá hagsmunum brotaþola, þá hafa þau átt erfitt uppdráttar og það er skiljanlegt að það sé gagnrýnt hvernig kerfið virkar að því leytinu til,“ segir Símon. Hann segir að málsmeðferðin sjálf; reglur sem bundnar eru í stjórnarskrá og mannréttindasáttmála gera það að verkum þar sem „hinn ákærði þarf að sanna mál sitt, ef það er vafi, á sakborningur að njóta hans.“
En hvað þarf til þess að sakfellt sé í kynferðisbrotamáli?
„Það þarf að sannfæra dómara eða dómendur að tiltekinn atburður hafi átt sér stað. Þetta er sönnunarmat sem fer fram í þessum málum, dómari hefur fyrir framan sig þau sönnunargögn sem ákæruvaldið hefur lagt fram.“ Síðan kemur það í hlut dómara að vega og meta hverju þeir trúa, hvað sé hægt að leggja niðurstöðu til grundvallar og svo framvegis. „Þegar dómari hefur skoðað það tekur hann afstöðu.“
Breytt landslag með aukinni þekkingu
Símon segir að sönnunarbyrði í málaflokknum hafi þróast. „Áður fyrr voru þessi mál mjög sjaldan kærð og þau áttu mjög erfitt uppdráttar innan kerfisins. Þessi mál hafa þróast og breyst, fyrst og fremst vegna þess að þekking þeirra sem að málunum koma er meiri og betri.“ Í því samhengi nefnir hann ákæruvaldið, dómara, lögregluna og réttargæslumenn.
Almenningur hefur áhrif
Mikill þrýstingur hefur verið á þyngri refsingar í kynferðisbrotamálum og Símon segir það hafa átt þátt í því að refsingar í málunum hafa þyngst á síðustu árum. „Það er alveg ábyggilegt að þar hefur viðhorf almennings haft áhrif. Við megum ekki gleyma því að dómstólarnir eru sprottnir upp úr okkar eigin samfélagi og eiga að endurspegla viðhorf okkar til málefna líðandi stundar. Dómararnir koma úr því sama umhverfi. Það er mjög eðlilegt að dómarar endurspegli samfélagsvitundina.“