Sakar sitjandi forseta um kosningasvindl

09.08.2017 - 03:44
epa06132514 Ballot boxes are guarded by an armed policeman at a polling station in Kibera in the capital Nairobi, Kenya, 08 August 2017. Kenyans are casting their votes to elect their leaders in general elections where Kenyatta is being challenged by the
Vopnaðir lögreglumenn gæta kjörkassa í Nairóbí, höfuðborg Kenía, í forsetakosningunum sem þar fóru fram á þriðjudag.  Mynd: EPA
Raila Odinga, helsti keppinautur Uhurus Kenyatta, Keníaforseta, véfengir bráðabirgðaniðstöður forsetakosninganna í Kenía í gær. Búið var að telja ríflega ellefu milljónir atkvæða þegar yfirkjörstjórn birti fyrstu tölur. Samkvæmt þeim hafði Kenyatta fengið um 55 prósent atkvæða en Odinga 44 prósent, og munaði ríflega 1,1 milljón atkvæða á frambjóðendunum tveimur. Odinga boðaði til fréttamannafundar í rauðabítið á miðvikudagsmorgni og fullyrti að kjörstjórnin hefði falsað kosningaúrslitin.

Sagði hann kjörstjórnina ekki hafa komið fram með nein gögn, sem sönnuðu að þessar tölur ættu sér nokkra stoð í raunveruleikanum. „Kerfið hefur brugðist,“ sagði Odinga, „þetta er í raun bara tölvan, sem er að kjósa.“ Spáð hafði verið hörðum og jöfnum slag milli þeirra Odinga og Kenyatta, en þeir bitust einnig um forsetaembættið 2013. Þá bauð Kenyatta sig fram í fyrsta sinn og hafði sigur, en Odinga tapaði sínum þriðju forsetakosningum. Hann er 72 ára og talið víst að þessi fjórða atlaga hans að forsetaembættinu verði jafnframt sú síðasta.

Í aðdraganda kosninganna hefur Odinga ítrekað fullyrt að eina leiðin til að koma í veg fyrir sigur hans fælist í umfangsmiklu kosningasvindli. Þá stendur hann fast á því, að brögð hafi líka verið í tafli í kosningunum 2007 og 2013.

Mikil spenna hefur verið í landinu síðustu vikur og mánuði. Chris Msando, einn helsti höfundur kosningakerfisins sem nú var notað í fyrsta skipti og átti að fyrirbyggja allt svindl, fannst myrtur í byrjun þessa mánaðar, og jók það enn á óróann. Odinga lét að því liggja á fréttamannafundinum í morgun, að bein tengsl væru á milli morðsins á Msando og meints svindls í kosningunum í gær.

Stjórnmálaskýrendur hafa lýst miklum áhyggjum af eftirmálum kosninganna. Þær áhyggjur lúta ekki síst að viðbrögðum þess frambjóðanda, sem lýtur í lægra haldi. Eftir kosningarnar 2007 brutust víða út óeirðir, sem þróuðust út í blóðug átök milli andstæðra fylkinga, þar sem uppruni skipti ekki minna máli en stjórnmálaskoðanir. Yfir 1.100 dóu í þeim hildarleik og um 600.000 hröktust á vergang.