Álit Skipulagsstofnunar á umhverfisáhrifum Hvammsvirkjunar er áfellisdómur yfir framkvæmdinni, að mati Landverndar. Stjórnarmaður í Landvernd sakar forstjóra Landsvirkjunar um vísvitandi blekkingar í málinu.
Skipulagsstofnun kynnti í gær álit sitt á hluta umhverfisáhrifa vegna Hvammsvirkjunar í Þjórsá, og er umhverfismatinu þar með lokið. Stofnunin telur áhrif á landslag verulega neikvæð og áhrif á ferðaþjónustu og útivist talsvert neikvæð. Forstjóri Landsvirkjunar og oddviti hreppsnefndar Skeiða- og Gnúpverjahrepps sögðu báðir í fréttum í gær að þetta hafi ekki áhrif á fyrirhuguð áform um virkjunina. Snorri Baldursson, stjórnarmaður hjá Landvernd, segir að niðurstaða Skipulagsstofnunar hafi ekki komið á óvart.
„Það sem kemur á óvart er auðvitað kokhreysti forstjóra Landsvirkjunar þegar hann kemur fram í sjónvarpi og segir að niðurstaða Skipulagsstofnunar, sem er auðvitað áfellisdómur yfir þessari framkvæmd, hafi nánast engin áhrif á fyrirtækið eða áætlanir þess. Og að það muni bara halda áfram ótrautt að undirbúa þetta, en kannski vanda sig pínulítið,“ segir Snorri.
„En það sem er kannski enn alvarlegra í máli forstjórans er að hann segir núna að hann hafi vitað allan tímann að áhrif á landslag yrðu veruleg. Og að það væri óhjákvæmilegt með svona stóra framkvæmd. Í matsskýrslu sem sami forstjóri leggur fram og verkfræðistofan Efla vann kemur fram að áhrif þessara framkvæmda á landslag verði óveruleg eða í mesta lagi talsverð. Þarna talar forstjórinn auðvitað tveimur tungum, fyrir og eftir, og það er alveg ljóst að hann hefur vísvitandi verið að blekkja almenning og þá sem þessi framkvæmd skiptir máli.“
Úrskurður frekar en álit
Snorri segir matsferlið ekki virka. Það sé óeðlilegt að Landsvirkjun greiði fyrirtæki laun fyrir að meta framkvæmd á borð við þessa. „Og í öðru lagi gengur heldur ekki að hafa hér heila ríkisstofnun sem er með sérfræðinga sem eiga að leggja hlutlaust mat á svona framkvæmdir, og svo koma framkvæmdaaðilar bara og yppta öxlum og segja „þetta skiptir mig engu máli“ og sveitarstjórnirnar segja „þetta skiptir mig engu máli“.“
Því sé nauðsynlegt að breyta lögum, að mati Landverndar. „Við viljum að þetta verði eins og þetta var áður, að álit Skipulagsstofnunar sé ekki bara álit sem hægt sé að hunsa heldur sé hreinlega úrskurður sem framkvæmdaaðilar og sveitarfélög verða að fara eftir,“ segir Snorri.