„Þetta er sorglegur dagur fyrir tískuheiminn,“ segir fatahönnuðurinn Guðmundur Jör um þýska ofurhönnuðinn Karl Lagerfeld sem lést í gær, 85 ára að aldri.

„En það hlaut að koma að þessu. Hann er búinn að vera gamall lengi,“ segir Guðmundur í samtali við Síðdegisútvarpið. Lagerfeld var yfirhönnuður og listrænn stjórnandi hjá tískuhúsum eins og Fendi og Chanel á ferlinum, auk þess sem hann stofnaði eigin fatalínu á 9. áratugnum og tók einnig upp ljósmyndun á síðari hluta ferlilsins. Allir á ákveðnum aldri þekktu Karl Lagerfel í útliti. „Hann var akfeitur í gamla daga. Grennti sig svo mikið og tók þá upp nýjan stíl, og hefur alltaf haldið í það sama síðan. Þetta gráhærða tagl, svartklæddur og með sólgleraugu sem hefur verið hans einkenni.“ Lagerfeld vakti ekki síður athygli fyrir glæfralegar og afdráttarlausar yfirlýsingar, til að mynda lýsti hann því yfir að það að klæðast joggíngbuxum væri merki um uppgjöf, að viðkomandi hefði tapað fyrir lífinu. „En hann hefur þó framleitt þær og selt. Hann hefur sterkar skoðanir en er náttúrulega hræsnari eins og tískuheimurinn er.“

Guðmundur Jör segir Lagerfeld hafa verið frábæran hönnuð sem hafi afrekað mikið, og þegar hann tók við Chanel hafi hann orðið að súperstjörnu. „En það er kannski ekki það merkilegasta við hann, heldur er hann svo mikill karakter. Ég hef oft líkt honum við Bob Dylan að því leyti að líf hans var svolítið eins og leikþáttur. Hann er oft alvarlegur og ruglingslegur í viðtölum. Það hefur alltaf verið á reiki hvað hann er gamall því hann var sífellt að ljúga til um aldur. Svo sagðist hann ekki hafa kynhneigð.“

Jör sagðist hafa verið hissa þegar hann fékk fregnirnar. „Það hafði aldrei hvarflað að mér að hann myndi deyja, hann er svolítið svona ómannlegur,“ segir Guðmundur. „Eins og hann sé búinn að vera 75 ára í 30 ár, alltaf eins.“ Er hann kannski Lemmy í Motörhead tískuheimsins? „Já, það mætti kannski segja það,“ segir Guðmundur og hlær við, en bætir að lokum við að hann muni sakna hans.

Andri Freyr Viðarsson og Hafdís Helga Helgadóttir ræddu við Guðmund Jörundsson í Síðdegisútvarpinu.