Árið 1911 fannst kassi með gömlum handritum í Wollaton Hall, húsi Middletons lávarðs, aðalsmanns í Bretlandi. Ekki hafði verið hirt um kassann lengi, enda eflaust óþarft þar sem hann var merktur: „gamall pappír – verðlaus“.

Innihald kassans var langt í frá verðlaust. Í honum var að finna ýmsar sögur og ljóð, þar á meðal áður áður óþekkta franska rómönsu sem titluð hefur verið Le Roman de Silence eða Sagan af Sílens og eignuð Meistara Heldris frá Cornwall. Handritið var skrifað einhvern tímann á seinni hluta þrettándu aldar, og hefur líklegast borist til Englands á fimmtándu öldinni, eftir gripdeildir enskra aðalsmanna í hundrað ára stríðinu.

Það tók einhverja áratugi fyrir fræðimenn að átta sig á verðmæti þessa fundar í aðalsmannahöllinni bresku. Fyrsta lýsing á handritinu birtist árið 1917, og kom rómansan ekki út á prenti fyrr en árið 1972. En síðustu áratugi hefur áhugi fræðimanna og leikmanna á sögunni aukist jafnt og þétt, og er ekki að furða, þar sem sagan segir frá Sílens, fræknum riddara við hirð Englandskonungs og Frakkakonungs, riddara sem er fæddur kona.

Sagan af Sílens eftir Meistara Heldris er frásögn sem á við nútímaalesendur. Í frásögninni er tekist á við spurningar um kyn, kyngervi, kynhneigð og kynvitund. Sagt er frá kynferðislegu ofbeldi og áreitni, og því velt upp hver megi segja frá þessu ofbeldi, spurningar sem brenna á vörum okkar allra á tímum #MeToo. Í sögunni er greint frá valdaójafnvægi og misrétti, ekki aðeins kynjanna, heldur einnig stéttarmismun. Lesendum bregður við lestur frásagnar þessarar sjö hundruð ára gömlu sögu hve lítið samfélag okkar hefur breyst að mörgu leyti, hve misréttið sem plagaði samfélag formæðra okkar og -feðra, plagar okkur enn í dag.

Brynhildur Heiðar- og Ómarsdóttir sagði frá Roman de Silence, í bókmenntaþættinum Orð um bækur 9. febrúar 2019 á Rás 1.