Flest höfum við lesið Gísla sögu Súrssonar – hvort sem við vildum það eða ekki. Ármann Jakobsson, íslenskufræðingur og rithöfundur, segir að þessi forna frásögn tali á margvíslegan hátt inn í samtíma okkar og sé hún lesin á réttan hátt geti hún haft mannbætandi áhrif á sjálfumglatt nútímafólk.

Ármann Jakobsson fjallaði um Gísla sögu Súrssonar í Lestinni á Rás 1 í nýjum dagskrárlið þar sem umsjónarmenn þáttarins fá valda einstaklinga úr ólíkum áttum til að fjalla um bækur sem að þeirra mati skýra betur en aðrar þá tíma sem við lifum nú. Ármann valdi söguna eftir mikla og langa íhugun – og talsvert sálarstríð. „Ég bar þetta undir gott fólk, sem er ekki jafn sérkennilegt og ég og flestir voru sammála mér um að þetta væri gott val þannig að ég ákvað að halda mig við það.“

Líf Ármanns snýst raunar um söguna þessa daga. Hann er að kenna hana á námskeiði við Háskóla Íslands og hugsar því um fátt annað. „ Ég geng til svefns hugsandi um Gísla sögu. Ég vakna hugsandi um Gísla sögu. Svo eru fréttir þar sem talað er um hrunið en ég heyri þær ekki því ég hugsa bara um Gísla sögu.“

Svona er þetta víst alltaf þegar hann kennir fornsögur – hann hættir að geta hugsað um annað. „En það eru góð málefnaleg rök óháð minni aumu tilvist til þess að velja Gísla sögu,“ segir Ármann.

Fólk er í stöðugri útlegð

En með hvaða hætti talar saga sem samin er á tíundu öld með beinum hætti inn í okkar tíma? Ármann segir að hún geri það að vissu leyti í gegnum langlífa formgerð: systkinahópinn. „Gísla saga lýsir systkinahópi og systkinahópar breytast ekki svo mikið. Systkini sem alast upp saman hafa ákveðin einkenni og systkini eru vægðarlausari við hvort annað en allir aðrir – nema kannski einn aðili. Ég mundi segja að systkini væru næst-vægðarlausasti gagnrýnandi sem maður getur fengið. Systkini gefa engann afslátt, gefa engin grið og taka enga fanga. Þau segja ævinlega: Þú komst þér í þetta sjálfur.“

Og þannig hegða systkinin í Gísla sögu sér segir Ármann. „Þau meta í raun og veru systkini sín algerlega án afsakana. Þetta er alveg eins á 10. öld þegar hún er samin og núna. Systkinahópar eru alltaf systkinahópar.“

Kjarni bókarinnar er glæpur, sekt og útlegð segir Ármann. „Þetta er allt saman efni sem eiga við ennþá. Fólk er í stöðugri útlegð. Það er samfélag og sumir eru þar í þungamiðju, aðrir í jaðrinum. Fólk uppgötvar þetta strax á leikskóla. Þegar ég fór á leikskóla fjögurra ára þá var bátur á miðjum leikvellinum og vinsælu krakkarnir léku sér þar. Sumir, eins og ég, fengu aldrei að vera með í þessum bát því það var fyrir aðalkrakkana. Slík útlegð er alltaf til í samfélaginu. Útlegð Gísla er í rauninni lýsandi fyrir þá útlegð sem allir eru í.“

Sjálfsræktin í fyrsta sæti

Ármann sér að auki í sögunni eins konar átrúnaðargoð nútímans, Þorkel bróður Gísla. „Það er þessi setning, „verður hver með sjálfum sér lengst að fara,“ sem Þorkell segir við hann, vegna þess að Gísli er alltaf að berjast fyrir einhvern málstað, fyrir heiður fjölskyldunnar, sæmd og hefnd. Þorkell segir í raun og veru að maður sjálfur sé númer eitt. Þorkell setur sig í fyrsta sæti eins og margir gera í nútímanum – og á öllum tímum – en kannski sérstaklega í nútímanum. Það er þessi sjálfsrækt sem fólk talar um.“ 

Það er ekki auðvelt að finna til samkenndar með Gísla Súrssyni segir Ármann. Hann er afreksmaður, bestur í flestu, öruggur í sinni ætlun og alltaf viss um eigin tilgang. „En svo fer hann að dreyma og sagan fer að snúast um það sem að gerist á nóttunni hjá Gísla Súrssyni. Það heimsækja hann tvær konur, önnur vond og hin góð.“ Það er þá sem það örlar á viðkvæmni hjá honum. „Löngu seinna koma konurnar til hans og hrella hann, og þetta er líka svo algengt hjá fólki á 21. öldinni, það eru allir að bægja burtu alls konar hlutum en svo koma þeir á nóttunni og þá verða þeir ekki umflúnir lengur.“ 

„Ég sagði að systkini væru næstversti gagnrýnandi sem maður fær, sá versti er auðvitað maður sjálfur. Það er enginn vægðarlausari við einstaklinginn en hann sjálfur. Þetta hafa menn uppgötvað á þessari öld – en í rauninni var búið að uppgötva það áður í Gíslasögu.“

Lesendur eiga alltaf að hugsa um sjálfa sig

Ármann segir að útlegðin sé alltaf möguleiki allra og þess vegna höfði sagan til fólks á öllum tímum. „Því fólk vill tilheyra samfélagi, fáir velja sér útlegðina sem hlutskipti, þess vegna er útlegðin eitthvað sem fólk óttast mjög mikið.“ 

Ármann er á þeirri skoðun að fólk ætti helst ekki að hugsa um ritunartíma Gísla sögu þegar það les hana. „Lesendur eiga alltaf að hugsa um sjálfa sig; hvað segir þessi bók um mig? Ég held að ef hún er lesin nógu vel þá kollvarpi Gísla saga sjálfumgleði lesandans. Hún hefur náð að kollvarpa minni sjálfumgleði talsvert. Það held ég að sé gott fyrir hvern mann.“