Halla Þórlaug Óskarsdóttir veltir fyrir sér ósmekklegri og ósæmilegri fatahönnun og forréttindablindu sem virðist hrjá einhverja í tískuheiminum.


Halla Þórlaug Óskarsdóttir skrifar:

Fatahönnunarlína í eigu bresku söngkonunnar Katy Perry afturkallaði á dögunum skó, sem voru framleiddir í tveimur litum. Svínsbleikum og dökkbrúnum. Á skónum voru augu, nef og eldrauðar; þykkar varir. Þeir svínsbleiku vekja ekki upp menningarlegar tilvísanir við fyrstu sýn, en hinir dökkbrúnu gera það samstundis. Mætir þú manneskju sem gengur um í þeim skóm, þá gefur að líta á hvorum fæti, niðurlægjandi staðalímynd svartra, svokallaða „golliwogs“.

Nafnið Golliwog er dregið af barnabókapersónu ensk-bandaríska höfundarins Florence Kate Upton, sem kom fyrst út á prenti í Bretlandi árið 1895. Þessi staðalímynd er oft nefnd „blackface“ á enska tungu. Ég spurði vini mína á Facebook hvort til væri orð yfir „blackface“ eða „golliwog“ á íslensku, þar sem mér datt ekkert í hug. Félagi minn benti mér á að ordabok.is mælti með orðinu „negragervi“. Úff, hugsaði ég. Mig langar ekki að nota það orð.

Mér gekk sem sagt brösuglega að finna íslenskt orð yfir það sem ég vildi segja. Það afhjúpar auðvitað margt um sögu okkar þjóðar, eins og tungumál gera iðulega. En í raun og veru er orðið negragervi kannski ekki fráleitt í þessu samhengi. Orðið negri er úrelt. N-orðið. Og með því að minnast þess í þessu samsetta orð þá er dregin upp sú sorglega saga. „Blackface“ er jafnbannað og að segja n-orðið. En ég ætla samt, í minni stöðu, að láta þessa íslensku þýðingu vera.

Vafasamur rúllukragabolur frá Gucci  

En við vorum að tala um ósmekklega skó frá Katy Perry. Það er reyndar ekki langt síðan annað og talsvert stærra hönnunarfyrirtæki afturkallaði ullarpeysu á svipuðum forsendum. Það var nefnilega bara í síðustu viku. Hönnunarrisinn Gucci hafði sent frá sér rúllukragapeysu, með svo háum kraga að draga mátti hann upp fyrir nef, eins og gert var þegar peysan var auglýst. Yfir munninum var gat og í kringum gatið var efnið ekki svart heldur eldrautt. Það þarf ekki langskólagenginn listfræðing til þess að sjá líkindin með niðurlægjandi, stereótýpísku myndunum sem kallast „golliwog“.

Eins kaldhæðnislegt og það nú er þá er febrúar tileinkaður sögu svartra í Bandaríkjanum, Black History month. Og þessi vika, önnur vika febrúarmánaðar, hefur reyndar verið tileinkuð þessari sögu frá árinu 1926, en var þá kölluð Negro History Week. Samfélagsmiðlar loguðu enda í síðustu viku þegar Gucci viðraði forréttindablindu sína. Suðurafríski skemmtikrafturinn Loyiso Gola lét í sér heyra á Twitter og tísti að þar sem hann hefði ekki efni á Gucci væri sniðganga hans lítils megnug.

Fyndið. En líka svo skelfilega satt. Því allt snýst þetta í grunninn um vald og stéttaskiptingu.  

Sársaukafulla kakan – Painful Cake

Sænski listamaðurinn Makode Linde hefur unnið mikið með þessa staðalímynd svartra – blackface, golliwogs – dökkmáluð húð, rauðar, þykkar varir. Árið 2012 varð mikið uppþot í samtímalistasafni Stokkhólms, Moderna museet, þegar Linde var fenginn til þess að hanna köku fyrir 75 ára afmælishátíð hins sænska ríkissambands listamanna. Kakan sem borin var á borð var í laginu eins og Venus frá Willendorf, dökkbrún að lit, en þar sem höfuðið hefði átt að vera var gat í borðinu og þar stakk listamaðurinn upp eigin höfði – máluðu eins og „golliwog“ með öllu tilheyrandi.

Kannski er ágætt, áður en lengra er haldið, að taka það fram að faðir Makode Linde er frá Vestur-Afríku og listamaðurinn er dökkur á hörund.

Kakan ein og sér olli í sjálfu sér engu uppþoti, heldur eftirmálar partýsins. Það er að segja myndband sem sýnir þáverandi menningarmálaráðherra Svíþjóðar skera sér sneið af kökunni, því það sem gerðist samtímis var að listamaðurinn – höfuð kökunnar, öskraði „af sársauka“. Viðstaddir hlæja. Skella ekki upp úr, en hlæja, svona óþægilega. Svona ég-veit-ekki-alveg-hvernig-ég-á-að-vera-svo-ég-hlæ-bara-hlátri.

Sænski rithöfundurinn Johannes Anyuru skrifar um þetta í bók sinni Strömavbrottets barn sem kom út á síðasta ári, og lýsir þessu sem atviki sem hafi opnað rifu á herbergi sem áður var myrkt – og nú flæddi inn ljós.

Ég veit ekki hvort menningarmálaráðherran hafði eitthvert val, þannig séð. Hún var í opinberri samkomu þar sem hún hafði ákveðið hlutverk; að opna samkomuna. Hún mætti, henni var réttur hnífur, hún átti að skera fyrstu sneiðina. Hún rekur því hnífinn í svartan líkamann. Kakan öskrar. Hún fer að hlæja. Hinir í herberginu líka. Allir hvítir.

Hefði ráðherrann átt að afþakka kökuna? Hugsanlega. Viðbrögð samfélagsins voru sterk og þess var jafnvel krafist að hún segði af sér. En hvað hefði það þýtt hefði hún neitað að skera í kökuna? Notað vald sitt og neitað. Þetta snýst auðvitað um vald, í grunninn. Valdaójafnvægi. Mig grunar að ekki hefði neinu máli skipt hvort hún skæri eða ekki, hún hefði alltaf verið hvít, valdamikil kona andspænis svörtum útlimalausum kvenlíkama, með hníf í hönd. Og sömuleiðis svörtum listamanni, sem bað hana um að taka þátt í gjörningi sínum.

Það er til nokkuð sem heitir forréttindablinda – og við þjáumst flest af henni. Forréttindablinda er ekki það sama og vanþakklæti. Einstaklingur sem gerir sér fullkomlega grein fyrir að það er ekki sjálfsagt að hafa aðgang að hreinu vatni, og er þakklátur fyrir það, hefur ekki endilega velt því fyrir sér að plástrarnir sem eru seldir í apótekinu taka mið af húðlitnum hans.

Að eiga hvítan líkama er stundum kannski svolítið eins og að vera án líkama. Hugsanlega hefði hönnunarlína Katy Perry sloppið við uppþotið hefði hún haldið sig við svínsbleiku skóna með rauðu vörunum. Hugsanlega. Það eru forréttindi þess að eiga ósýnilegan líkama. Líkama sem maður er ekki smættaður niður í. Líkama sem ekki er þrunginn sárri sögu.

Að afneita því, er forréttindablinda.