Sumarið í Svíþjóð vareitt það þurrasta sem vitað er um. Uppskera á kornmeti hefur ekki verið minni í nær sextíu ár og þeir sem halda búpeninga kvíða margir vetrinum enda fóður lítil og brunnar víða þurrir.

Sumarið 2018 var bæði hlýtt og þurrt  í Svíþjóð. Þótt slík lýsing hljómi ef til vill harla vel í íslenskum eyrum, þá horfði til hreinustu vandræða í Skandinavíu. Miklir skógareldar geysuðu í Svíþjóð og bændur voru uggandi yfir uppskeru sinni - hvort sem það var grænmeti, kornmeti eða vetrarfóður fyrir búpeninginn.Nú er að verða ljóst hver staðan er hjá sænskum bændum, eftir sumarið, sem er eitt það þurrasta í seinni tíð, að mati sænsku veðurstofunnar.
 

Ástandið er ekki gott

Skógarbændur misstu yfir tuttugu þúsund hektara skóglendis í hamförunum. Skaðinn er metinn á yfir átta milljarða íslenskra króna. Sumir skógarbændur misstu nær allan nytjaskóg sinn, eins og Björn Brink, skógarbóndi í Helsingjalandi. Fjölskylda hans og ætt hefur ræktað, grysjað og nýtt skóginn í sex kynslóðir - frá því á átjándu öld. En nú er hann lítils virði.
 

„Ég kom hingað eftir eldana ásamt konu minni. Hún grét. Ég varð heltekinn af þunglyndi. Maður upplifir algeran vanmátt,“ sagði Björn í viðtali við sænska ríkissjónvarpið.
 

Kornuppskeran brást

Ekki er staðan betri hjá sænskum kornbændum. Uppskera á hveiti, höfrum og fleira kornmeti er sú minnsta í nær sextíu ári - eða frá því 1959. Uppskeran í ár er næstum helmingi minni en í fyrra, samkvæmt spá landbúnaðarráðuneytisins. Og það er ekki nóg með að uppskeran sé lítil. Vöxturinn er oft svo misjafn og kornið svo lélegt að það er ekki víst að það borgi sig að valsa það og fullvinna.
 
Almennt er útlit fyrir að uppskera af grænmeti og rótargrænmeti sé tíu til fimmtíu prósent minni í ár en í meðalári, að því er fram kemur í blaðinu ATL - Lantbrukets Affärstidning - sem gefið er út af sænsku bændasamtökunum og líkja má við Bændablaðið á Íslandi.



Möguleg gjaldþrot framundan 

„Þetta er alger hörmung. Fyrir sum fyrirtæki þýðir þetta gjaldþrot eða því sem næst,“segir Ove Gustavsson, bóndi í Vestur-Svíþjóð, í samtali við sænska ríkissjónvarpið. Kornuppskeran var þriðjungi minni en í meðalári.
 
Ekki eru þeir betur settir sem eru með búfé. Hey og annað fóður er víða um þriðjungi minna en í fyrra auk þess sem mikill skortur er á hálmi, sem lagður er undir skepnurnar og er sérlega mikilvægur á vorin, þegar kýrnar bera. 
 
Bændur gera það sem hægt er til að bæta þetta upp, meðal annars með því að heyja á svæðum sem alla jafna eru ekki slegin og nota grastegundir og plöntur í fóður, sem alla jafna eru ekki nýttar. 

 Hvenær hættir grasið að vaxa?

Þá hafa bændur líka reynt að halda dýrunum úti eins lengi og hægt er. Og taka þau á hús jafnvel mánuði seinna en vanalega. Hér í Svíþjóð má búsmali vera í haga fram eftir hausti, allt þar til grasið hættir að vaxa. En hvenær hættir grasið að vaxa? Því fylgjast starfsmenn hins opinbera með og ákvarða í hverju héraði fyrir sig. Yfirleitt er miðað við að hitinn hafi lækkað í svona um það bil fimm gráður.

Við núverandi aðstæður vonuðust bændur eftir því að yfirvöld yrðu ekki allt of ströng á þessu. Og haust hefur reyndar verið mjög milt og ekki fyrr en núna seinni hluta nóvember sem verulega tók að kólna.


 Mikill fóðurskortur

En svona tilfæringar eru þó ekki nóg. Fóðurskorturinn er of mikill og bændur hafa þurft að fækka talsvert í bústofnum sínum. Í sumar var svo mikið álag á sláturhúsum að óttast var að lóga þyrfti skepnum án þess að nýta kjötið. En biðtími eftir að koma skepnum í slátrun hefur nú styttst, þótt hann sé enn tveir til þrír mánuðir.
 
Formaður sænsku bændasamtakanna í Varmland sagði eftir þriðja slátt, í lok september, að það verði fóðurskortur í vetur. Og líklegt að einhver bú fari í þrot og bændafjölskyldur hrekist af heimilum sínum.

 
 Stuðningur frá stjórnvöldum

Stjórnvöld hafa meðal annars brugðist við krísunni með því að heita bændum fjárstyrkjum - alls að jafnvirði um sextán milljarða íslenskra króna. Þá hefur verið gripið til ýmiskonar annarra stuðningsaðgerða. Héraðsstjórnin á Skáni, syðst í Svíþjóð, samþykkti til að mynda að kaupa sjö tonn af nautakjöti aukalega, til að hjálpa nautgripabændum á erfiðum tímum. Kjötið verður svo á matseðli sjúkrahúsa í héraðinu næstu mánuði.

 
Stórmarkaðir og slátrarar hafa í haust hvatt fólk sérstaklega til að styðja sænska bændur og kaupa sænskt kjöt og sænskar landbúnaðarvörur. Og könnun verslunarrisans Coop sýnir að sjö af hverjum tíu viðskiptavinum keðjunnar geta hugsað sér að borga meira fyrir sænskar landbúnaðarafurðir, renni féð til bændanna. 

 
Hvað með næsta sumar?

En svo er víst nauðsynlegt að spyrja hvernig staðan verði næsta sumar. Halda þurrkarnir áfram? Þá hafa bændur ekki fyrninga frá síðasta ári, líkt og nú; auk þess sem vatnsbúskapurinn er ekki beisinn. 
 
Í þurrkunum í sumar lækkaði grunnvatnsstaða víða í landinu mjög mikið og brunnar þornuðu jafnvel upp. Í haust hefur svo rignt nokkuð minna en vænta mátti. Þótt víðast hvar hafi grunnvatnsstaðan hækkað nokkuð, eru brunnar á nokkrum svæðum enn til þess að gera þurrir. Og nú þegar það er að byrja að frysta og snjóa, mun ekki mikið bætast í þá. Á nokkrum svæðum í Svíþjóð hefur grunnvatnsstaðan aldrei verið jafn lág í nóvembermánuði. Og bændur sem reiða sig á vatn úr brunnum fyrir skepnur sínar, gætu lent í talsverðum vandræðum þegar líður á veturinn.