SA og ASÍ um fjárlagafrumvarpið

12.09.2017 - 22:29
Hlíðahverfi í Reykjavík með Esjuna í bakgrunni.
 Mynd: Þórgunnur Oddsdóttir
Bætur úr atvinnutryggingakerfinu verða í sögulegu lágmarki í hlutfalli við lægstu laun nái nýtt fjárlagafrumvarp fram að ganga. Verkefni í þágu velferðar eru vanfjármögnunð. Þetta segir hagfræðingur ASÍ. Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins segir mikilvægt að standa vörð um kaupmáttaraukninguna sem náðst hefur á undanförnum árum og stuðla að stöðugleika. Prófsteinn ríkisstjórnarinnar séu lausir kjarasamningar opinberra starfsmanna. 

 

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins segir SA setja spurningarmerki við að í fjárlagafrumvarpinu  sé verið að treysta á lengsta hagvaxtarstig í sögu Íslands.

„Mögulega er það of bjartsýn forsenda. Það er fjöldi samninga laus gagnvart stéttarfélögum opinberra starfsmanna og þar er ákveðinn óvissuþáttur. Það sem er jákvætt er að skuldir halda áfram að lækka. Skuldir ríkissjóðs hafa næstum helmingast frá árinu 2011 þegar að þær voru í hámarki. En stóra málið og prófsteinninn sem ríkisstjórnin stendur frammi fyrir eru lausu kjarasamningarnir. Niðurstaða þeirra mun ráða efnahagslegri framvindu á Íslandi á næstu árum.“

Samtökin gagnrýni einnig þær skattahækkanir sem finna má í frumvarpinu.

„Sér í lagi þar sem að takturinn í hagkerfinu er að hægjast og núna er rétti tíminn til að spila út skattalækkunum til atvinnulífsins sem hefur þurft að þola sterkt raungengi svo dæmi sé nefnt.“

Henný Hinz, deildarstjóri hagdeildar Alþýðusambands Íslands segir að í nýja fjárlagafrumvarpinu sé verið viðhalda þeirri stefnu sem sett var fram  í fjármálaáætlun og fjármálastefnu fyrr á þessu ári.

„Stór velfarðarverkefni eru mjög vanfjármögnuð. Þar má nefna rekstur heilbrigðis- og öldrunarþjónustunnar, húsnæðismál, breytingar á almannatryggingakerfinu gagnvart örorku- og lífeyrisþegum og svo sýnist okkur að bætur úr atvinnutryggingakerfinu séu í sögulegu lágmarki í hlutfalli við lægstu laun.“

Þá bendir ASÍ á að útgjöld til barnabóta lækki að raunvirði auk þess sem vaxtabætur lækki verulega eða sem nemur tveimur milljörðum á næsta ár

„Það mun þá þýða fækkun á þeim sem eiga rétt á bótunum og þeim hefur nú þegar fækkað verulega á síðustu árum.“

 

Mynd með færslu
María Sigrún Hilmarsdóttir
Fréttastofa RÚV