S-Kóreumenn bjóða N-Kóreumönnum til viðræðna

17.07.2017 - 03:52
Mynd með færslu
Friðarsafnið, eina húsið í þorpinu Panmunjon á landamærum N- og S-Kóreu sem enn stendur. Þar er nú Friðarsafn.  Mynd: Bubbha  -  Wikimedia Commons
Stjórnvöld í Suður-Kóreu buðu í morgun ráðamönnum í Norður-Kóreu til viðræðna um hernaðarmál þjóðanna, með því yfirlýsta markmiði að draga úr spennunni milli ríkjanna, sem mjög hefur aukist upp á síðkastið. Er þetta fyrsta tilboðið af þessu tagi sem sunnanmenn senda nágrönnum sínum í norðri síðan Moon Ja-In tók við forsetaembættinu í vor, en hann talaði mjög fyrir þíðu í samskiptum ríkjanna í kosningabaráttunni. Tilboðið kemur þó formlega ekki frá honum, heldur varnarmálaráðuneytinu.

„Við leggjum fram boð um fund ... sem miðar að því að binda enda á allar fjandsamlegar aðgerðir sem auka á hernaðarlega spennu meðfram landamærunum,“ segir í yfirlýsingu frá ráðuneytinu. Skrifstofa Alþjóða Rauða krossins í Seúl sendi einnig erindi til Pjongjang, þar sem beðið er um viðræður um frekari sameiningu fjölskyldna, sem stíað var í sundur í Kóreustríðinu og náðu ekki saman áður en löndin voru formlega aðskilin. Slíkar sameiningar urðu síðast fyrir tveimur árum, einnig fyrir milligöngu Rauða krossins.

Rauði krossinn biður um að fundurinn verði haldinn þann 1. ágúst í litlu þorpi á öryggissvæðinu við landamærin, þar sem formlegar viðræður ríkjanna fara iðulega fram, þá sjaldan sem það gerist. Er þorpið jafnan nefnt Panmunjon eftir samnefndu þorpi sem stóð þar skammt frá, en vopnahléssamningur ríkjanna var undirritaður árið þar árið 1953. Ekkert er þó eftir af því þorpi nema húsið sem samningurinn var undirritaður í. Það geymir nú Friðarsafn, sem rekið er af Norður-Kóreumönnum. 

Verði fundur ráðamanna ríkjanna að veruleika verða það fyrstu beinu viðræðurnar þeirra á milli síðan í desember 2015. Fyrirrennari Moons í forsetaembættinu, Park Geun-Hye, sem hrökklaðist endanlega úr embætti vegna hneykslismála fyrr á þessu ári, neitaði að eiga í frekari viðræðum við ráðamenn í Pjongjang fyrr en þeir skuldbindu sig til að hætta öllu kjarnorkuvopnabrölti.

Kjarnorku- og eldflaugatilraunir hafa hins vegar haldið linnulítið áfram norðan landamæranna, í trássi við fordæmingar annarra ríkja og ályktanir Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Ekki eru liðnar tvær vikur síðan norður-kóreski herinn skaut eldflaug á loft, sem talin er fyrsta, langdræga eldflaugin úr þeirra smiðju, og jafnvel til þess fallin að draga alla leið til Alaska.   
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV