Kristín Sigurðardóttir, fréttamaður, og Vilhjálmur Þór Guðmundsson, tökumaður, fóru að jökulsporðinum í dag og fylgdust þar með upptökum hlaupsins við jökulsporðinn. Þau ræddu þar við Tómas Jóhannesson, jarðeðlisfræðing hjá Veðurstofunni sem segir vísindamenn búna að bíða lengi eftir þessu hlaupi.
„Því við erum núna með svo mikið af mælitækjum sem hægt er að nota til að túlka þetta hlaup,“ segir Tómas sem telur að þetta verði með stærri hlaupum úr Skaftárkötlum. Vísindamenn voru við vestasta útfall Skaftárhlaups - það heyrist glöggt í myndbandinu hversu miklir kraftar eru þarna að verki.
Rennsli á vatnsmæli Skaftár við Sveinstind er nú tæpir 1900 rúmmetrar á sekúndu. Dregið hefur verulega úr siginu í Eystri Skaftárkatli og hefur það staðið í stað síðan síðdegis en ketillinn hefur sigið um 68 metra síðan á laugardag. Almannavarnir hafa lýst yfir hættustigi vegna Skaftárhlaups.
Þess gætir niður í byggð en á eftir að aukast þar til muna næstu daga. Sveinn Rúnar Kristjánsson, yfirlögregluþjónn lögreglunnar á Suðurlandi sem staddur er á Kirkjubæjarklaustri, sagði í kvöldfréttum að ekki væri óttast að hlaupið ógnaði byggð og að hringveginum yrði haldið opnum. Ef loka þyrfti þjóðvegi eitt í Eldhrauni væri hægt að fara hjáleið um Meðalland.
Þegar fréttastofa og vísindamenn voru við jökulsporðinn í morgun fylgdust þeir með því hvernig hlaupið óx og óx - næstum á tíu mínútna fresti og urðu vitni að því hvernig brotnaði upp úr jöklinum og stór stykki losnuðu frá.
Sveinn Rúnar Kristjánsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi, sagði í kvöldfréttum RÚV að þeir væru tiltölulega afslappaðir - þeir óttast ekki að hlaupið ógni byggð og að hringveginum verði haldið opnum.