Þórólfur Árnason, forstjóri Samgöngustofu, segir rekstrarleyfishafa hópbifreiða bera ábyrgð á því að farartæki séu örugg til notkunar. Ellefu mánuðir voru síðan rúta, sem ekið var aftan á fólksbíl nærri Kirkjubæjarklaustri fyrir tveimur árum, fór í sína árlegu skoðun þegar slysið gerðist.

Fjörutíu og fjórir ferðamenn ásamt leiðsögumanni og ökumanni voru í rútunni. Fjórir farþegar og ökumaður köstuðust út í slysinu en enginn þeirra var í öryggisbelti. Tveir farþegar festust undir rútunni. Annar þeirra var látinn þegar að var komið en hinn lést hálfum mánuði síðar. Fimm voru alvarlega slösuð.

Skýrsla rannsóknarnefndar samgönguslysa birtist í vikunni. Í skýrslu nefndarinnar eru gerðar athugasemdir við ástand rútunnar. Hún var átján ára gömul og ekin 1,2 milljónir kílómetra. Og við rannsókn kom í ljós að ástandi hemlakerfis hennar var ábótavant því hemlar í hægra framhjóli virkuðu en engin virkni var á hemlum í vinstra framhjóli.

Þar eru einnig gerðar athugasemdir við hvíldartíma ökumanns, hann hafi ekið of hratt miðað við aðstæður og öryggisbelti hafi ekki verið í notkun. Þórólfur segir rekstraraðilarnir beri ábyrgð á öryggi farþega. „Við höfum verið að bæta mjög eftirlit með því að fyrirtæki setji sér sjálf öryggisáætlanir, það eru þau sem eru ábyrg fyrir málinu og að þau nýti sér þann búnað sem eru í bílunum, bílbelti og annað til að tryggja öryggi farþega.“

Samgöngustofa hefur eftirlit með ökutækjum með árlegri skoðun. Þórólfur segir að þessi rúta hafi verið skoðuð 11 mánuðum fyrir slysið og á þeim tíma geti margt gerst. Hann segir að ekki sé nauðsynlegt að auka eftirlit. „Fyrst og fremst er það þannig að það er alltaf hægt að svindla á eftirliti ef það er brotavilji fyrir hendi þannig við þurfum alltaf að höfða til rekstrarleyfishafanna sjálfra. Atvinnulífið vill það, það vill bera sjálft ábyrgð, þannig við höfum stutt það með forvörnum, fræðslu og upplýsingum.“

Nýjar tölur frá Samgöngustofu sýna að slösuðum í hópbifreiðum fækkaði töluvert á milli ára, þeir voru 60 árið 2017 en 30 í fyrra. Alvarlega slasaðir voru 17 árið 2017 en einungis þrír í fyrra. Þórólfur segir mikinn árangur hafa náðst með auknu samstarfi og fræðslu. „Öryggis og fræðsludeild Samgöngustofu hefur fundað með fyrirtækjunum, með Landsbjörg, Rannsóknarnefnd samgönguslysa og rekstrarleyfishöfum almennt og það er besta forvörnin, að menn beri ábyrgð og átti sig sjálfir.“