Rússar sækja í norður-kóreskt vinnuafl

21.03.2017 - 05:17
epa05291355 A picture made available on 06 May 2016 shows workers at a construction site in Pyongyang, North Korea, 16 April 2016. North Korea will hold the party congress of its ruling Korean Workers' Party for the first time in 36 years on 06 May
 Mynd: EPA
Norður-Kórea náði nýlega samkomulagi við Rússland um að fá að auka flutning vinnuafls til Rússlands. Þessir samningar náðust þrátt fyrir að verulegar viðskiptaþvinganir hafi verið lagðar á Norður-Kóreu vegna ítrekaðra kjarnorku- og flugskeytatilrauna þeirra. 

Suður-kóreska fréttastofan Yonhap greinir frá þessu og hefur eftir útvarpsfrétt Radio Free Asia. Þar segir að löndin hafi náð samkomulagi á fundi í Pyongyang, höfuðborg Norður-Kóreu, á föstudag. Ríkisfréttastöð Norður-Kóreu flutti sömu frétt á föstudag. Samkomulagið var undirritað af Ri Kwang-gun, aðstoðar-efnahagsmálaráðherra Norður-Kóreu, og Dmitri Demidenko, varaformanns nefndar rússneska innanríkisráðuneytisins um innflutt vinnuafl.

Ríkin undirrituðu samning um tímabundið atvinnuleyfi Norður-Kóreubúa í Rússlandi árið 2007. Búast má við því að samkomulagið sem náðist um helgina eigi eftir að valda talsverðum usla, því vinnuafl erlendis er helsta leið norður-kóreskra stjórnvalda til að fá erlendan gjaldeyri til ríkisins. Sá gjaldeyrir er notaður til kaupa á varningi fyrir kjarnorkutilraunir ríkisins.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV