Rótgrónar sérverslanir kveðja miðborgina

29.04.2016 - 20:01
Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Storkurinn, Litir og föndur og Vísir. Þessar sérverslanir og fleiri til eru farnar eða á förum úr miðborginni. Verslunareigendur hafa sumir hverjir áhyggjur af aukinni einhæfni í verslunarflórunni í miðbænum, síhækkandi húsnæðisverð og minni ásókn Íslendinga geri það að verkum að þar þrífist ekkert lengur nema minjagripabúðir, veitingastaðir og hótel. Aðrir eru jákvæðir og telja að jafnvægi eigi eftir að komast á með tíð og tíma.

Hjálmar Sveinsson, formaður umhverfis- og skipulagsráðs borgarinnar, segir að ferðaþjónustan hafi haft margt gott í för með sér fyrir miðborgina en að til greina komi að innleiða fleiri reglur og kvóta til að stýra framboði á verslun og þjónustu. 

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot úr fréttum  -  RÚV
Mannlíf í Bankastræti.
Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Kjörgarður

Storkurinn flýgur úr hreiðrinu eftir 56 ár: flytur annað

Guðrún Hanele, eigandi hannyrðaverslunarinnar Storksins í Kjörgarði, fékk það endanlega staðfest í dag að eigandi húsnæðisins hygðist segja leigusamningnum upp. Verslunin flytur í annað húsnæði. 

„Við erum náttúrulega búin að hafa svolítinn tíma til að venjast tilhugsuninni en það verður að segjast eins og er að þetta er rótgróin verslun, hún er búin að vera í þessu húsi í 56 ár og ræturnar orðnar svolítið djúpar, erfitt að hreyfa sig. Þetta er bara það sem verður að gerast og við þurum að huga að framtíðinni. Þetta mun hafa áhrif, ekki bara á okkur heldur líka nærumhverfi okkar vegna þess að við eigum stóran hóp af föstum viðskiptavinum sem leggja leið sína í miðborgina til að hitta okkur og koma hingað að versla og ef við förum þá hugsanlega kemur hluti þessara viðskiptavina ekki lengur í miðborgina, það mun þá væntanlega hafa áhrif á fleiri en bara okkur.“

Guðrún segir miðborgina hafa breyst verulega hratt undanfarið, það sé svolítið sorglegt. Þó auðvitað breytist hlutir. 

„Það er erfitt að venjast því að borgin sé að breytast í stað sem hinn venjulegi Íslendingur vill ekki lengur heimsækja, það er eiginlega sorglegast. Þó það sé alltaf gaman að koma í miðborgina, mikið líf og margir veitingastaðir, þeim mun ekki fækka en verslunum mun fækka, svona sérverslunum sem er gaman að hafa í bland við annað.“

Guðrún segist myndu taka því fagnandi ef borgaryfirvöld gætu komið í veg fyrir þessa þróun.

„Í verslunarmiðstöðvum eins og Kringlunni og Smáralind er ákveðin stýring í gangi. Passað upp á að það sé ákveðið hlutfall af ákveðnum tegundum verslana en það er ekki um neitt slíkt að ræða í miðborginni, þetta er bara frumskógarlögmálið hér og erfitt að hafa stjórn á því. Ég veit ekki hvað þeir gætu gert en þess væri óskandi að þeir gætu haft stjórn á því.“

 

Mynd með færslu
 Mynd: rúv

„Íbúðir fyrir Íslendinga, ekki ferðamenn“

Til stendur að gera miklar breytingar á verslunarhúsnæðinu Kjörgarði, sem stendur við Laugaveg 59, framkvæmdir hefjast í maí, nýrri hæð verður bætt ofan á húsið og allt að ellefu íbúðir innréttaðar á þriðju og fjórðu hæð. „Íbúðir fyrir Íslendinga, ekki ferðamenn,“ segir Sæmundur Sæmdundsson, umsjónarmaður fasteignarinnar. Á annarri hæð, þar sem Storkurinn er nú ásamt taílenska veitingastaðnum Ruan Thai, á að opna stór veitingastaður. Sæmundur vill ekki gefa upp hvaða staður það verður, en segir að þekktir veitingamenn komi til með að reka hann.

„Eins og að koma í Magasin du nord“

 Kjörgarður opnaði árið 1959 og Storkurinn hefur verið þar síðan, blaðamaður Þjóðviljans lýsti verslunarmiðstöðinni svo, skömmu eftir að hún opnaði. „Kjörgarður er verzlunarmiðstöð í líkingu við magasín erlendra stórborga, þar eru nú þegar starfandi 14 verslanir." Einn viðskiptavinanna lýsti yfir hrifningu sinni í samtali við blaðið.

„Þetta er flott, þetta er eins og að koma í Magasin du nord.“ 

Mynd með færslu
 Mynd: Þjóðviljinn/timarit.is
Þjóðviljinn 1959.

Lífgar upp á borgina

Guðbjörg Hjálmarsdóttir, Verslunarstjóri í Snyrtivörubúðinni Sigurboganum segir túrismann lífga upp á borgina og styðja við íslenska verslun. Ferðamenn versli þó ekki mikið í búðinni, en það sé nokkur áhugi á vörum sem þeir fái ekki heima, íslenskar snyrtivörur séu til dæmis geysivinsælar meðal fólks frá Asíulöndum. Hún segir að sérverslunum í bænum fari fjölgandi. Það hverjar þrífist fari eftir gerð.

„Hvað viltu fá mikið?“

Hún segist smeykari við aukna græðgismenningu meðal húseigenda en lundavæðingu. Húseigendur í miðbænum vilji margir byggja og breyta í hótel, þeir hækki sumir leiguverð upp úr öllu valdi og boli rótgrónum fyrirtækjum í burtu. Þetta valdi skjálfta í hópi verslunarmanna sem flestir leigja sitt pláss. Fleiri verslunareigendur sem Spegillinn ræddi við lýstu yfir áhyggjum af þessu. Leiguverð hafi hækkað verulega og fasteignagjöld um það bil tvöfaldast síðastliðin þrjú ár. Einn verslunareigandi sagði ákveðinn 2007 anda svífa yfir vötnum, boðið sé í eignina og spurt, hversu mikið viltu?

 

Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink RÚV  -  RÚV Anton Brink
Skólavörðuholt.

Minna af Íslendingum í bænum

Verslunin Litir og föndur er farin af Skólavörðustígnum en þar var hún til húsa í 38 ár. Áfram verður rekin verslun að Smiðjuvegi í Kópavogi. Rammagerðin, minjagripaverslun, og útivistarbúðin 66 gráður norður, koma í staðinn. Hjálmar Axel Ingibergsson, einn eigenda Lita og föndurs, segir að ýmsir samverkandi þættir hafi orðið til þess að tekin var ákvörðun um að selja. Miðbærinn hafi breyst, dregið hafi úr komum Íslendinga enda almenn færri Íslendingar búsettir á svæðinu. Þetta hafði ekki áhrif á rekstur Lita og föndurs þar sem túristaverslunin vó upp á móti, verslunin brást við þróuninni með því að auka framboð af varningi sem höfðaði til ferðamanna. Svo kom að því að taka þurfti ákvörðun. Annað hvort að fara eða að breyta búðinni og leggja meira upp úr minjagripasölu. Annars væri enginn möguleiki á vexti. Hjálmar segir breytingarnar í miðbænum hafa verið gífurlega hraðar undanfarin tvö eða þrjú ár, verslanaflóran sé orðin einhæfari og Íslendingar hafi í raun lítið að sækja þangað. Í hvert sinn sem eitthvert verlsunarrými losni komi eitthvað túristatengt í staðinn. Hann telur að það geti haft alvarlegar afleiðingar í för með sér hverfi allar sérverslanir úr miðbænum. Þá hætti hann að höfða til ferðamanna. 

Sumir halda í horfinu

Það er þó ekki svo að allar sérverslanir víki fyrir minjagripabúðum. Nýir Eigendur herrafataverslunarinnar Guðsteins Eyjólfssonar við Laugaveg og sælgætisverslunarinnar Vínbersins hyggjast halda verslunarstarfsemi áfram.

Mynd með færslu
 Mynd: Ingólfur Bjarni Sigfússon  -  RÚV

Hókus Pókus fer ekki langt

Verslunin Hókus Pókus, sem þekkt er fyrir sölu á grímubúningum, hefur verið rekin við Laugaveg 69 frá árinu 1988. Einar Arnarson, eigandi hennar, segir verslunina vera á förum. Hún fer þó ekki langt, flytur í annað verslunarrými á Laugavegi. Einar segir að aðstæður séu breyttar, það sé kannski ekki aðlaðandi fyrir fyrirtæki sem vilji herja á innlendan markað að koma sér fyrir í miðborginni. Hann segir verslunina hafa náð að aðlagast breytingunum að einhverju leyti, náð að höfða í auknum mæli til ferðamanna, hún sé þó ekki orðin nein lundabúð. 

Jafnvægi kemst á að nýju

Hann lítur björtum augum til framtíðar, segir að þó að nú sé skortur á verslunarrýmum og túrisminn hafi sprengt upp verð, þýði það ekki að það verði þannig endalaust, það standi til að byggja mikið á næstunni, þá fjölgi verslunarrýmum. Innan nokkurra ára náist aftur jafnvægi.

Kaupa hnífa og breytiklær fyrir innstungur

Járnvöruverslunin Brynja við Laugaveg 29 á sér 97 ára langa sögu. Björn G. Sæbjörnsson, verslunarstjóri, ber sig vel. Hann segir verslunina njóta góðs af auknum fjölda ferðamanna í borginni, þeir tali um hversu gaman þeim þyki að koma inn í alvörubúð og kaupi ýmislegt, svo sem breytiklær og íslenska hnífa en líka verkfæri. Aðspurður um hvort hann telji rétt að setja kvóta á minjagripabúðir segir hann að persónulega finnist honum nóg komið af minjagripaverslunum í bænum, hann hafi þó trú á því að jafnvægi náist á markaði með tíð og tíma. 

Þráinn skóari á Grettisgötu er líka jákvæður. Hann segir fjölgun ferðamanna hafa haft jákvæð áhrif, lifnað hafi yfir ýmsum reitum á Skólavörðuholtinu sem áður hafi verið hálfdauðir, þar skjóti veitingastaðir og litlar búðir upp kollinum. Hann segir lundabúðirnar svokölluðu af hinu góða, þær hafi fyllt upp í fullt af dauðum plássum. Hins vegar þurfi að standa vörð um þjónustu á borð við þá sem hann býður. Þá segist hann verða var við að Íslendingar versli í minna mæli í miðbænum en áður. Reksturinn gengur að hans sögn vel, hann áætlar að í fyrra hafi um 15% veltunnar tengst ferðamönnum og segist tala ensku eða dönsku stóran hluta dagsins. 

Halldór Bergdal, í Söluturninum Vitanum er ekki jafn ánægður. Hann segir að það þurfi líka að hugsa um heimamenn, það kóróni allt þegar Laugaveginum sé lokað. Kúnnahópurinn hafi breyst, Íslendingar fari annað.„Þetta eru síðustu móhíkanarnir sem hingað koma."segir hann. “

 

Mynd með færslu
 Mynd: Tryggvi Aðalbjörnsson  -  RÚV
Brynja. Elsta járnvörubúð á Íslandi.
Mynd með færslu
 Mynd: Kári Gylfason  -  RÚV
Hótel rís við Hlemm.

Aukin afskipti af markaðnum koma til greina

 
Það eru 2000 hótelherbergi í miðborg Reykjavíkur og gert er ráð fyrir að fjöldi þeirra tvöfaldist á næstu árum. Síðastliðin sextán ár hefur verið í gildi kvóti á rekstur veitingahúsa í miðborginni, sums staðar má hlutfall veitingastaða vera 30% af rekstri á jarðhæð og annars staðar 50%.
 
„Þetta er eiginlega tvenns konar, annars vegar kvótar sem eru beinlínis til verndar smásöluverslun á Laugavegi og Skólavörðustíg, þar skulu vera 70% smásöluverslanir á jarðhæðum, 30% veitingahús. Þessu var reyndar breytt aðeins í nýja aðalskipulaginu þannig að ofan Vitastígs á Laugavegi mega vera 50% verslanir, 50% veitingahús og sama með Skólavörðustíg, þetta var gert, allavega í tilfelli Laugavegsins vegna þess að verslun hefur alltaf átt dálítið erfitt uppdráttar ofarlega á honum. Svo er annar kvóti sem kveður á um að starfsemi við eina götuhlið má ekki fara yfir 50% af sömu starfsemi, að undanskilinni smáverslun,“
Segir Hjálmar Sveinsson, formaður Umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar. Hann segir að verið sé að endurskoða aðstæður neðst á Hverfisgötu.
 
„Við teljum að það sé of strangur kvóti að þar þurfi að vera 50% smásöluverslun. Hverfisgatan er dálítið sérstök og kannski væri allt í lagi að þar væri rýmra og meira svigrúm fyrir veitingastaði.“
Hjálmar segir kvótakerfið hafa reynst mjög vel, án þess væri sennilega lítið um annað en veitingastaði á Laugavegi. Hann segir verslun í borginni aldrei hafa verið blómlegri, ásókn í að opna veitingastaði sé gífurleg. Nú sæki yfir milljón ferðamenn miðborgarsvæðið á hverju ári, borgin hafi gjörbreyst að því leyti. Hann segir að til þess að mæta þessu breytta samfélagi sé nú verið að undirbúa breytingu á aðalskipulagi til að mæta þessu breyta samhengi. 
„Meginspurning þar verður: Er ástæða til að setja hótelkvóta á Laugavegssvæðinu, sambærilegan við þann sem var settur í Kvosinni?“
 
Í skemmri tíma hefur verið í gildi 23% kvóti á hótelrekstur í Kvosinni, nú er hlutfall þeirra 15% en það mun ná 23% á næstu árum. Hjálmar vonar að hóteluppbygging teygi sig í áttina frá miðbænum, svo sem í áttina að Skeifunni, og fylgi samgönguæðum. Sú þróun sé þegar hafin. 
 

Hard Rock, Joe and the Juice og Dunkin Donuts

 
Í stað bókabúðarinnar Iðu við Lækjargötu kemur skyndibitastaðurinn Hard Rock Café, Samloku- og heilsusafakeðjan Joe and the Juice opnar við Laugaveg 10 í sumar en þar hefur Veitingahúsið Asía verið síðastliðin 27 ár,  í fyrra tók kleinuhringjakeðjan Dunkin´ Donuts svo við húsnæði sem Veitingastaðurinn Buddha Café, var í áður. Getur verið að miðbærinn sé að keðjuvæðast? Að einungis stórar veitingastaðakeðjur fari að eiga efni á að vera þar? Hjálmar segist ekki viss en bendir á að á miðjum Laugavegi sé meira um smávöruverslanir en kvótinn geri ráð fyrir 76%, veitingastaðirnir séu sérstaklega blómlegir og fjörugir og hann hafi ekki orðið var við að keðjur hafi rutt sér til rúms. 
 
„En af því að þú nefnir keðjur þá er það eitt af því sem er sums staðar beitt í sambandi við kvótasetningu, þá setja borgaryfirvöld takmörk við því, þá erum við líka að tala um verslanakeðjur, hversu mikið af keðjubúðum mega koma í þær borgir. Þá sæi ég frekar fyrir mér að þetta gæti hugsanlega verið leið til að koma í veg fyrir að Laugavegurinn fyllist af minjagripabúðum, meira og minna í eigu sama fyrirtækis.“
 Hjálmar segir það sorglegt að rótgrónar sérverslanir hverfi úr miðbænum. En hann telur ekki rétt að setja kvóta á minjagripabúðir almennt. 
 
„Borgin er þegar búin að vera með mjög mikil inngrip, inn á þetta svæði og inn í ráðstöfunarrétt þeirra sem eiga fasteign við Laugaveginn með því að banna fólki að opna veitingastað ef það uppfyllir ekki kvóta, þú ert að grípa inn í þennan ráðstöfunarrétt og eignaréttinn en það hefur gefist vel svo ég segi það enn og aftur. Svarið hefur verið að það sé ekki hlutverk borgarinnar að stjórna því hverju kaupmenn raða í hillurnar. Kaupmenn verða sjálfir að finna út hvað selst best og það er eðli verslunar. Keðjutakmarkanir eru hins vegar til umræðu, að setja takmörk á hversu margar verslanir eitt fyrirtæki má eiga. Það eru til umræðu allskyns leiðir, sumir halda því fram að það eigi ekki að setja neina kvóta, markaðurinn eigi að ráða þessu algjörlega en ég er ósammála því.“
Mynd með færslu
Ekki verður leyfilegt að nota teiknimyndapersónur á matvælaumbúðir ef tillagan nær fram að ganga.  Mynd: Bændasamtökin

Breytingarnar komi íbúum vel

Hjálmar segir að lifnað hafi verulega yfir miðborginni upp á síðkastið og segir breytingarnar koma íbúum vel. Til dæmis hafi matvælabúðum fjölgað, Airbnb-ferðamenn stuðli að uppbyggingu í þeirri þjónustu, þeir eldi í matinn. Nefna má Euromarket og Víði express við Ingólfsstræti. Hann segir að borgin hafi stuðlað að bættu samlífi íbúa og ferðaþjónustuaðila með að takmarka ferðir stórra rútubíla um hverfin og að hugsanlega sé hægt að takmarka þær enn frekar.

Sverrir Þ. Sverrisson, formaður Íbúasamtaka miðborgar Reykjavíkur, tekur undir það að uppbyggingin í tengslum við ferðamennskuna hafi komið sér vel fyrir svæðið. Hverfisgatan hafi til dæmis gengið í endurnýjun lífdaga. Hann segir íbúa miðborgarinnar ekki haldna fortíðarþrá. 

„Íbúar eru almennt held ég ánægðir með þær breytingar sem eru að verða á umhverfinu að því gefnu að þær breytingar séu ekki úr takti við aðrar byggingar á svæðinu, það hefur tekist bærilega að láta þetta fara saman í þessum uppbyggingaverkefnum, eins og niðri á Hverfisgötu, þar er að koma í ljós að húsin sem hafa verið endurnýjuð hæfa umhverfi sínu og prýða götuna.“

Sverrir segir að tryggja þurfi að árekstrar verði ekki á milli íbúa og ferðamanna. Það hafi gengið nokkuð vel. 

„Ferðamennskan byggir auðvitað á gistirýmum sem voru ekki en eru nú orðin mjög víða og svo auðvitað akstrinum til og frá og þar hefur stundum komið til hnökra sem menn hafa verið að reyna að vinna úr.“

Sverrir segist hafa nokkrar áhyggjur af Kvosinni og svæðunum upp frá henni. Þar hafi íbúum fækkað.

„Ef að það fara að verða þar alfarið gististaðir og hótel þá koma fram ruðningsáhrif og það er auðvitað búið að gerast í Kvosinni, þar er ekki sama íbúðabyggð sem var áður. Við höfum verið að hvetja til þess að menn settu reglur um hvar gistiheimili og hótel megi vera og í hvaða mæli, nú er kominn kvóti hvað hótel snertir, kannski eru hlutföllin sem þar eru í gangi of rúm.“

En eiga fjölbreyttari kvótar rétt á sér að hans mati? 

„Svona takmarkanir eru í sjálfu sér ekki spennandi fyrirbæri, almennt, en ef það er hætta á að álagið af ferðamennsku verði á kostnað íbúa þurfa menn að hugsa sinn gang og ef kvóti á einhverja starfsemi getur gætt að jafnvægi íbúa og ferðamanna á það rétt á sér, almennt talað.“

Mynd með færslu
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV
Spegillinn
Þessi þáttur er í hlaðvarpi