Ian McEwan rithöfundur var sagður á hátindi ferils síns þegar hann heimsótti Ísland árið 2002, þar sem hann tók þátt í breskri bókmenntahátíð í Reykjavík. „Það veldur ætíð áhyggjum, því þaðan er jú aðeins ein leið, nema það sé annar hátindur í sjónmáli,“ sagði McEwan þá í viðtali á Rás 1.
Á sumardaginn fyrsta var tilkynnt að breski rithöfundurinn Ian McEwan hlyti fyrstur manna alþjóðleg bókmenntaverðlaun Halldórs Laxness. McEwan er rithöfundur sem markaði vatnaskil í breskum bókmenntum og í lengri tíð talinn í fremstu röð skáldsagnahöfunda heims. Í umsögn valnefndarinnar segir að yfir sögum hans hvíli nútíminn eins og reykur úr verksmiðju, „og ekki bara reykur heldur loftslag, sérstakt loftslag, andrúmsloft. Stíllinn er úthugsaður, nákvæmur og skýr, en einkennist um leið af órökrænum skynjunum en slíkar lýsingar eru aldrei úr lausu lofti gripnar heldur greyptar í sálarástand persónanna. Nákvæmni setninganna vegur þungt, skýrleiki þeirra og hljómur, í stuttu máli sagt, andrúmsloftið í textanum. Öllum má vera ljóst að vandi mannlegrar tilveru knýr að dyrum þessa höfundar og hann opnar sig ætíð með óvæntu og nýstárlegu móti.“
McEwan er væntanlegur til landsins í september til að veita verðlaununum viðtöku. Það eru liðnir tæpir tveir áratugir síðan rithöfundurinn var síðast staddur hér á landi, þá til að taka þátt í breskri bókmenntahátíð sem fram fór í Háskólabíói. McEwan hafði þá nýverið sent frá sér skáldsöguna Atonement, sem kom kom síðar út í íslenskri þýðingu árið 2003 undir titlinum Friðþæging. Hann var sagður á hátindi ferilsins af lesendum og gagnrýnendum. Í viðtali sem Eiríkur Guðmundsson tók við hann fyrir Víðsjá á Rás 1 kom fram að McEwan var ekki um sel; af hátindi er jú aðeins ein leið, nema það sé annar hátindur í sjónmáli.
Hann var vissulega ánægður með viðtökur nýjustu skáldsögunnar en um leið smeykur um að nýir lesendur yrðu fyrir vonbrigðum með næstu bók sem hann skrifaði. „Maður getur jú ekki skrifað sömu bókina aftur,“ sagði McEwan.
Aðeins ein leið er fær í þeirri stöðu, sagði hann. Hún sé sú að draga sig í hlé frá lesendum og almannarýminu og byrja upp á nýtt. „Að byrja á nýrri skáldsögu er ævinlega afskaplega erfitt og hæggengt ferli. Ég er vonlaus í að byrja á nýjum bókum. Maður verður að líta svo á að hver ný skáldsaga er sú fyrsta og gleyma því sem öðrum finnst og aðrir vilja.“
Í viðtalinu sagði McEwan að eldri verk sín, þau sem komu á undan Atonement, hafi verið í töluverðri fjarlægð frá sér á þeim tímapunkti. „Í þessum bókum einblíndi ég á hinar dekkri hliðar sálarlífsins og hvað skáldskaparlistina varðaði þá lagði ég ekki mikið upp úr byggingu sagnanna. Verkin voru einföld að byggingu, það voru engir útúrdúrar,“ sagði hann. Í vissum skilningi hafi hann einblínt á yfirborðið, gefið hluti í skyn í stað þess að leyfa sér að ganga alla leið þegar kom að því að lýsa vitundarlífi persónanna.
McEwan þakkaði rithöfundum 19. aldar árangur sinn á sviði skáldsögunnar. Af þeim lærði hann það að lýsa og fylgja eftir vitundarlífi skáldsagnarpersónanna. En þetta, að komast inn í vitund einhvers annars, er að hans mati eitt af aðalsmerkjum skáldsögunnar.
„Rithöfundar ættu aldrei að gleyma því að grundvöllur bókmenntanna er nautn,“ sagði McEwan. Ef höfundurinn gleymir því gerir hann lesandanum mikinn ógreiða. „Það er ekki nautn þess sem lætur kitla sig, þetta er miklu lúmskari og fínlegri nautn. Þetta er nautn þess sem rannsakar og uppgötvar... sem kemst nær sannindum um mannlegt eðli og aðstæður.“
Hann sagði að rithöfundar ættu ekki að nýta skáldskapinn til að segja okkur hvernig við eigum að lifa, heldur sé skáldskapurinn okkur til ánægju.
Spurður að því hvers vegna hann skrifaði sagði hann það beinlínis vera ógnvekjandi að gera það ekki. „Fyrir guðleysingja eins og mig er það nánast eina skyldan sem ég hef. Við erum hér í stuttan tíma og við verðum að nota hann til að stækka reynsluheim okkar, auka vitund okkar eins mikið og við mögulega getum. Ef verk mín hjálpa öðrum að víkka út sína vitund þá er það gott, en að láta dagana líða án þess að skrifa eða skilja nokkuð eftir sig, það er einhvers konar vanþakklæti.“