Rapparinn og listakonan Slim Poppins hefur vakið mikla athygli í tónlistarsenu New York borgar frá því að tónlist hennar fangaði athygli stórstjörnunnar Rihönnu. Þórður Ingi Jónsson ræddi við Slim Poppins um rappið og velgengnina.


Þórður Ingi Jónsson skrifar: 

Slim Poppins er eitt heitasta nafnið í New York um þessar mundir. Eftir fyrstu stuttskífu hennar, Escape From Planet Earth, sem kom út fyrir hálfu ári vakti hún athygli stórstjörnunnar Rihönnu. Rihanna heldur úti snyrtivörulínu sem heitir Fenti Beauty og í ársbyrjun notaði hún lag af smáskífu Slim Poppins í auglýsingu fyrir nýju línuna. Lestin sló á þráðinn til Slim og spurði út í tónlistina og stuðninginn frá stórstirninu. Hún segir að tækifærið hafi komið út frá viðtali sem plötusnúðurinn HD tók við hana á útvarpsstöðinni NTS Radio en HD hefur tengsl við teymi Rihönnu.

Eftir símtalið frá fólki Rihönnu var Slim skiljanlega mjög spennt. „Ég trúði því einfaldlega ekki í fyrstu að þetta myndi nokkurn tímann gerast. Þrátt fyrir það gat ég ekki hætt að kíkja á símann sinn og kíkja á póstinn og sjá hvort ég væri komin með tölvupóst frá Rihönnu.“ Og svo kom tölvupóstur frá Fenti Beauty teyminu. Hún þurfti þó að bíða, þar sem þetta var um jólin, og spennan óx. Núna var Slim orðin mjög óþreyjufull. Hún reyndi að hætta að pæla í þessu yfir hátíðarnar en það var erfitt. „Síðan vaknaði ég á nýársdag við að síminn minn titraði stanslaust – þá var myndbandið með laginu komið út.“

Hún segir að viðbrögðin hafi verið hálfklikkuð. Allt í einu var hún komin upp á hærra plan, á annan stað. Þetta opnaði gáttir sem hún hefði aldrei getað séð fyrir. Einn póstur frá fólki stórstjörnunnar og allt var orðið breytt.

Slim segir að spilun á tónlist hennar hafi rokið upp. Það skipti gríðarlegu máli þar sem hún var að byrja í bransanum. Henni finnst magnað hvað svona tækifæri getur breytt miklu. Nokkrum mánuðum seinna hafði Fenti Beauty aftur samband og bað um enn meiri tónlist.

Ýmsar plötuútgáfur hafa haft samband við Slim í kjölfar Fenti Beauty auglýsinganna en hún segist ætla að flýta sér hægt. Hún er ekki tilbúin að hoppa á allt sem býðst heldur vill hún frekar bara vinna að sinni tónlist með vinum og vandamönnum og sjá hvað gerist. „Það helsta sem kom út úr þessu er að fleiri fóru að fylgjast með mér og trúa á það sem ég er að gera. Þetta hefur líka virkað sem hvatning til að halda áfram. Ég hætti í gömlu vinnunni og sneri mér alfarið að tónlistinni, að gera það sem ég fíla best.“

Aðspurð um tónlistarsenuna í New York þessa dagana segir Slim að hún skiptist í stórum dráttum í tvennt. Annars vegar er liðið sem vill brjótast út í meginstrauminn og njóta þess sem það hefur upp á að bjóða og svo hinir, sem eru trúir sinni eigin tónlist og senda út skilaboð með list sinni. Gömul saga og ný.

Þessa dagana er Slim Poppins að vinna að tónlistarmyndböndum fyrir fyrstu útgáfu sína. Hún er líka byrjuð á nýrri plötu og segir að velgengnin knýi sig áfram. Það sem áður tók langan tíma verður nú að gerast hratt. Þess má geta að Slim gerði nýlega lag með íslensku tónlistarkonunni Countess Malaise og kemur afrasktur þess samstarf út í ár. „Ég sendi kveðju til Íslands! Ég sé á netinu að Íslendingar hafi verið duglegir að hlusta á tónlistina mína.“

Rætt var við rapparann Slim Poppins í Lestinni.