Ríkislögreglustjóri hefur farið fram á það að keyptar verði vélbyssur til að vopna að minnsta kosti 150 lögreglumenn. Þetta kemur fram í greinargerð sem hann hefur sent innanríkisráðherra. Ríkislögreglustjóri telur þó að best væri að hægt yrði að vopna 260 lögreglumenn.

Embætti ríkislögreglustjóra boðaði í lok nóvember á síðasta ári að ráðherra yrði send greinargerð um þörfina á auknum búnaði þar með talin vopn. Þetta kom fram eftir að bæði Landhelgisgæslan og ríkislögregustjóri ákváðu að skila Norðmönnum 250 MP5 vélbyssum þegar í ljós kom að það þyrfti að greiða fyrir þær. Landhelgisgæslan, sem sá um viðskiptin við Norðmenn, hélt að um gjöf væri að ræða.

Nú er greinargerðin komin í hendur innanríkisráðherra og eftir því sem næst verður komist verður hún birt á morgun. Í henni er farið ítarlega yfir hver þörf lögreglu er talin vera á fleiri byssum og öðrum búnaði sem til þarf ef lögregla þarf að bregðast við skotárásum eða öðrum hættum sem steðja að. Einnig er lýst nauðsyn þess að lögreglumenn hljóti viðeigandi þjálfun í meðferð skotvopna. Meginniðurstaðan er að ríkislögreglustjóri telur nauðsynlegt að vopna að minnsta kosti 150 lögreglumenn en þó væri allra best að hægt yrði að vopna 260 lögreglumenn.

Hvorki innanríkisráðherra né talsmaður ríkislögreglustjóra voru tilbúin í viðtal við Spegilinn. Afstaða ráðherra er hins vegar sú ef að lögregla telur þörf á þessum vopnum og búnaði sé eðlilegt að verða við þeirri ósk.

Best væri að fá 260 vélbyssur
Þessi beiðni ríkislögreglustjóra kemur ekki á óvart og er í raun í samræmi við það sem áður hefur komið fram og kom fram í viðtali við Jón Bjartmarz yfirlögregluþjón hjá embætti ríkislögreglustjóra þegar hann var spurður í lok nóvember hvers vegna þörf væri á 150 vélbyssum. Í viðtalinu kom líka fram að í raun væri þörf á að vopna allt að 260 lögreglumenn þannig að þarfagreiningin nú er byggð á mati sem þegar lá fyrir þegar ríkislögreglustjóri ákvað að skila vélbyssunum 150 vegna þess að hann átti ekki pening.

Lagt er til við innaríkisráðherra að kröfurnar eða beiðnirnar, sem koma fram í greinargerðinni, verði metnar til fjár í samráði við ríkislögreglustjóra og gerð áætlun til lengri tíma um kaup á búnaði fyrir lögregluna til að efla viðbúnargetu hennar. Kannski eru hæg heimatökin því byssurnar 250, sem Landhelgisgæslan og ríkislögreglustjóri skiluðu, eru enn í geymslu uppi á Keflavíkurflugvelli. Af einhverjum ástæðum hefur það dregist að senda þær til Noregs. Þær áttu á kosta um 11,5 milljónir króna og í boði var að greiða þær í tveimur afborgunum. Stykkið var því á um 43 þúsund krónur og verðmiði á byssum lögreglunnar var um 6 og hálf milljón króna.