Innanríkisráðherra telur að Ríkislögreglustjóri hafi ekki brotið lög um opinber innkaup, líkt og Ríkisendurskoðun hefur haldið fram. Hann segir að sleggjudómar hafi verið kveðnir upp í málinu.

Innkaup Ríkislögreglustjóra voru gagnrýnd harðlega í skýrslu Ríkisendurskoðunar sem birt var í lok september. Rannsökuð voru viðskipti 14 löggæslustofnana við 4 fyrirtæki, sem öll eru í eigu lögreglumanna eða fjölskyldna þeirra. Viðskiptin voru að mestu með óeirðabúnað, svo sem hjálma og grímur.

Að mati Ríkisendurskoðunar braut hluti viðskiptanna í bága við ákvæði laga um opinber innkaup. Þannig hafi ríkislögreglustjóri til dæmis keypti vörur af fyrirtækinu Trademark ehf. fyrir tæpar 13 milljónir króna, en fyrirtækið er í eigu eiginkonu lögreglumanns hjá embættinu. Skýrsla Ríkisendurskoðunar var tekin til skoðunar í Innanríkisráðuneytinu og hefur ráðuneytið nú komist að niðurstöðu.

Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, segir að hann hafi sannfærst um það að hér hafi ekki á nokkurn hátt verið staðið óheiðarlega að málum og það hafi ekki verið farið á svig við landslög. Ráðherra ítrekar þó að það séu ýmsar brotalamir í þessum verkferlum og að verið sé að laga það. Hann segir þessa niðurstöðu ekki áfellisdóm yfir starfsemi Ríkisendurskoðunar. Hún sé ásetningur um að laga það sem hægt sé að laga og færa til betri vegar.

Aðspurður hvort það sé siðlaust að kaupa vörur af tengdum aðilum án útboðs sagði ráðherra að svo væri ekki. Það sé alltaf spurning um hvernig sé staðið sé að málum, hvort einhver sé að kaupa af sjálfum sér eða hagnast persónulega af málum. Svo hafi alls ekki verið í þessum tilvikum. Hins vegar sé verið að setja skýrar reglur í þessum efnum og ef verið sé að gera að því skóna að ríkislögreglustjóri eða einhverjir honum tengdir hafi verið að hagnast á þessum málum þá sé það alrangt. Innanríkisráðherra segir að sú mynd sem hafi verið dregin upp í fjölmiðlum af embættinu sé ómakleg og röng. Hann segist vera með þessu að gagnrýna fjölmiðla. Sleggjudómar hafi verið kveðnir upp í blöðum og á vefsíðum og ágætt sé að hver horfi fyrir sig í eigin rann.