Ríkið hefur enga yfirsýn yfir hundrað milljarða króna innkaup sín og starfshópur sem átti að skoða þau þurfti að leita til seljenda eftir upplýsingum um þau, þar sem ríkið hafði þær ekki. Þær upplýsingar benda ótvírætt til þess að ríkið og stofnanir þess fari illa með skattfé og geti sparað marga milljarða króna. Þingmaður segir skort á yfirsýn, eftirlitsleysi og tregðu stofnana við að bjóða út viðskipti, ástand sem bjóði upp á misnotkun. Fjallað var um málið í Kastljósi í kvöld.
Ríkið og 200 stofnanir þess verja árlega rúmum 140 milljörðum króna í innkaup ýmis konar. Um þriðjungi er varið í að efna þjónustusamninga. Tæpir 90 milljarðar króna fara hins vegar í kaup á vörum og þjónustu.
Svo umfangsmikil innkaup, ættu að öllu eðlilegu að verða til þess að ríkið gæti leitað hagstæðustu leiða til að gera þau öll með sem hagkvæmustum hætti. Gæti ekki bara heldur ætti beinlínis samkvæmt lögum. En þannig er það ekki og virðist ekki hafa verið lengi. Ríkið hefur nefnilega litlar og jafnvel engar upplýsingar um hvað það er kaupa inn fyrir tugi milljarða á ári hverju og því síður hvernig það kaupir inn. Stofnanir virðast hafa val um það hvort þær fylgi lögum um innkaup, og það sem verra er - ríkið fylgist illa með því.
“Ég var mjög undrandi. Ég átti ekki von á því að ríkið hefði einfaldlega ekki yfirsýn yfir hvað það væri að gera,“ sagði Jón Björnsson í Kastljósi í kvöld.
Jón sem er forstjóri Kaupáss, var fenginn til þess vorið 2014 að stýra starfshópi sem fjármálaráðherra skipaði til að skoða innkaup hins opinber.
Engar upplýsingar um innkaup
“Niðurstaðan var hins vegar sú að ríkið hefur ákaflega dapra yfirsýn yfir sín vörukaup. Það er engin stöðlun á bókhaldslyklum hjá hinu opinbera. Þannig að það sem fer í einn flokk hjá einni stofnun getur farið í annan flokk hjá einhverri annarri. Þú þarft bara handvirkt að ná í reikningana og bera þá saman. Við enduðum á því að hringja í seljandann og biðja hann að segja okkur hvað ríkið hefði keypt af sér.”
Í skýrslu hópsins eru tekin dæmi um sex vöruflokka og tilraunir til þess að finna samanburðarhæfar upplýsingar um innkaup ríkisins á þeim. Einungis einn þessara flokka, innkaup á tölvubúnaði, reyndist innihalda tiltækar upplýsingar hjá Ríkinu sjálfu. Í tveimur tilfellum þurfti að leita til seljandans eftir upplýsingum, um pappírskaup og skrifstofuhúsgögn. Í þremur vöruflokkum fékk starfshópurinn hins vegar engar upplýsingar, til að byggja á. Það átti við um flugfargjöld og viðskipti við bílaleigur.
En einnig hugbúnaðarviðskipti sem verður að teljast kaldhæðið, þar sem að samræmt bókhaldskerfi ríkisins býr ekki yfir hugbúnaði til að veita slíkar upplýsingar.
Það er með öðrum orðum ekki hægt að fylgjast með því hvernig 200 stofnanir kaupa inn. Engin viðmið eru heldur til um eðlileg útgjöld og engin ábyrgur fyrir því að greina upplýsingar og benda stofnunum á leiðir til hagræðingar.
Ríkið slakur neytandi
“Við sáum mjög fljótlega í þessu að hvar sem við litum þá var mjög mikill munur á hæsta og lægsta verði. Það var engin stöðlun í gangi hjá hinu opinbera. Í grunninn er bara keypt eftir stefnu hverrar stofnunar. Þannig að það er ekki verið að nýta sér stærðina þar. Það er ekki verið að gera neinar áætlanir. Það er heldur ekki hægt að fara í birgjana og biðja um ákveðin sparnað enda sást það að bæði gátum við séð mikinn verðmun á sömu vöru sem var keypt. Jafnvel keypta af sama birgjanum en á allt öðru verði,” sagði Jón.
Fjölmörg dæmi um gríðarlegan verðmun á vörum sem stofnanir keyptu af brigjum innan rammasamninga komu upp í vinnu starfshópsins. Þau dæmi sem ef til vill fá flesta til að hrista hausinn og staðfesta skort á yfirsýn og ráðdeild birtast þó í tilvikum þar sem sama varan var keypt af sama birgja, innan sama tímabils, oft með margföldum verðmun.
Getur sparað milljarða
Dæmi um þetta er stofnun sem árið 2013 keypti 20 stóla á lægra verði en önnur, sem keypti 60 stykki af sömu gerð. Verðmunurinn var um 70%. Samskonar dæmi fundust um pappírsinnkaup. Sama tegund, keypt á sama stað, en verðmunur allt að 97% milli stofnana.
Mat starfshópsins var að spara mætti ríkinu allt að 4 milljarða króna árlega í innkaupum á vörum og þjónustu.
“Það er mjög mikilvægt að alhæfa ekki um allar þessar 200 stofnanir. Því vissulega eru þarna stofnanir sem eru að gera fína hluti. Svo eru stofnanir sem virðast ekki vera að gera mikið. Þar er náttúrulega það áhyggjuefni hvort þeir séu almennt að hugsa um þetta,“ sagði Jón í Kastljósi í kvöld.
Oft gerðar athugasemdir
Það er í sjálfu sér ekkert nýtt að gerðar séu athugasemdir við að ráðuneyti og stofnanir fari á svig við lög og reglur sem kveða á um opin útboð og að leitað sé tilboða í innkaupum. Kastljós hefur undanfarið ár fjallað ítrekað um slík mál, sem oft ná mörg ár aftur í tímann. Hátt í tveggja milljarða króna viðskipti ríkisins við Icelandair án útboðs, þar sem stór hluti af afsláttarkjörum rennur til annara en ríkisins í formi vildarpunkta.
Svipaða sögu er að segja af næstum hálfs milljarðs króna viðskiptum Vegagerðarinnar við venslafólk starfsmanna og fyrrum starfsmenn Vegagerðarinnar sem viðgengist höfðu í fjölda ára. Rétt eins og margítrekuð hugbúnaðarverkefni tveggja ráðuneyta og stofnana þeirra fyrir á þriðja hundrað milljónir króna, af einu og sama fyrirtækinu; þar sem pólitískir fulltrúar og embættismenn sátu beggja vegna borðsins í viðskiptunum, sem aldrei voru boðin út.
Vantar vilja
Ríkisendurskoðun gerði það árið 2010 við skoðun á viðskiptum ríkisins við 800 birgja. Gerð var athugasemd við 104 tilvik, eða 13% viðskiptanna, vegna þess að þau voru ekki í samræmi við lög, oft á tíðum tugmilljóna viðskipti. Samkvæmt minnisblaði sem lagt var fyrir fjárlaganefnd fyrir ári kom fram að 40% af innkaupum ríkisins eru gerð utan laga, reglna eða viðmiða sem ríkið hefur ítrekað sett fram. Viðskipti sem nema tugum milljarða króna.
“Það vantar hins vegar pólitískan vilja og sömuleiðis hjá embættismönnunum að fylgja þessu eftir,“ sagði varaformaður fjárlaganefndar,“ Guðlaugur Þór Þórðarson í Kastljósi í kvöld.
„Ég hef verið þeirrar skoðunar að það eigi bara að vera svona sjálfkrafa í fjárlögunum að ef þú býður ekki út þá eigi bara að lækka framlögin til þín. En þegar við ætluðum að skoða það í síðustu fjárlögum kom í ljós að okkur vantaði nægilega góðar upplýsingar til að byggja á til þess að geta framkvæmt það. Áður höfðum við spurt Ríkiskaup sem benti okkur á að þeir bara gætu ekki náð þessum upplýsingum. ”
Einstök ráðuneyti sinna þessu ekki
Niðurstöðurnar lágu ekki fyrir fyrr en síðasta haust. Spurt var um útboð og tíðni þeirra á tölvu- og fjarskiptabúnaði, hugbúnaði, fjarskiptaþjónustu, raforkukaupum, þjónustu iðnaðarmanna og rekstrarráðgjöf og hvort lagt hefði verið mat á ávinning slíks áður en ákveðið var að bjóða út eða bjóða ekki út.
Samkvæmt svarinu var boðið út í færri en helmingi tilfella í öllum flokkum allra stofnana allra ráðuneyta. Mest í tölvukaupum og fjarskiptaþjónustu, allt að 45% en einungis einn fimmti stofnana eða minna, hafði leitað tilboða í öðrum flokkum og einungis tíunda hver stofnun hafði lagt mat á ávinning af því að bjóða út.
Athygli vekur að í svörum utanríkisráðuneytisins kemur fram að ráðuneytið og stofnanir þess höfðu aldrei boðið út kaup í neinum af þeim flokkum sem spurt var um.
“Þetta kom mér mjög á óvart. Og það kom mér líka á óvart að sjá að einstök ráðuneyti sinna þessu bara ekki.”
Þrátt fyrir augljós lögbrot í mörgum af þeim málum sem komið hafa upp í tengslum við opinber innkaup á síðustu misserum, hvort heldur sem er lög um opinber innkaup, stjórnsýslulög eða lög opinbera starfsmenn, hafa þau haft litlar sem engar afleiðingar. Fáheyrt er að jafnvel umfangsmikil og stór mál hafi miklar afleiðingar.
“Það er óskiljanlegt hvað þetta tekur langan tíma. Við erum búin að ræða þetta núna í það minnsta ár ef ekki áratugi.”
- Er kerfið því nákvæmlega eins og það er, af því að einhver hefur hag af því?
“Það segir sig alveg sjálft alveg sama hvaða kerfi það er. Hvort sem það er innkaupakerfi eða eitthvað annað, sem er ekki gagnsætt og er ekki yfirsýn yfir og þar af leiðandi erfitt að hafa eftirlit með því. Það bara býður upp á allra handa misnotkun. Og það er þetta sem menn reka sig á hvað eftir annað. Menn eru ekki að ganga í takt. Að stærstum hluta af því að menn hafa ekki yfirsýnina. En líka vegna landlægs smákóngaveldis á Íslandi. Það er örugglega ekkert einsdæmi en við þekkjum það,” sagði Guðlaugur Þór Þórðarson í Kastljósi í kvöld.
Nánar verður fjallað um þessi mál í Kastljósi annað kvöld og meðal annars rætt við forstjóra Ríkiskaupa. Á vef Kastljóss, www.kastljos.is, má finna netföng umsjónarmanna þáttarins. Þannig má koma ábendingum til umsjónarmanna þáttarins um þetta efni eða annað.