Krabbameinssjúk kona á Egilsstöðum gagnrýnir að fjölskylda hennar þurfi að bera mikinn ferðakostnað af því að sækja heilbrigðisþjónustu til Reykjavíkur. Í endurgreiðslukerfinu séu hindranir sem auki álag á veikt fólk.

Flug í lyfjameðferð kostar yfir 200 þúsund

Linda Sæberg glímir við brjóstakrabbamein og er að búa sig undir sjöundu ferðina til Reykjavíkur á þessu ári. Hún getur ekki flogið ein til baka eftir sterka lyfjagjöf og því þarf öll fjölskyldan að fara. Flugmiðar fyrir hana, manninn hennar og tvö börn kosta samtals rúmar 206 þúsund krónur. „Við fáum endurgreitt eftir dúk og disk fyrir mig og fylgdarmann. Ekki fyrir börnin okkar sem ég þarf samt alltaf að taka með mér. Ég þarf að fara til Reykjavíkur á þriggja vikna fresti. Að borga á þriggja vikna fresti 150-200 þúsund krónur er ekki hægt að leggja á neitt heimili,“ segir Linda.

Velja á milli vinnutaps eða tapaðrar endurgreiðslu

Mest reynir á fylgdarmanninn á bakaleiðinni en vegna vinnu getur hann ekki alltaf farið suður með sömu vél og Linda. Ef það gerist fæst hans flug ekki endurgreitt. Þau þurfa því stundum að velja á milli vinnutaps hjá honum eða að hans flug fáist ekki greitt af Sjúkratryggingum. Þau hafa sjálf borgað um hálfa milljón frá áramótum fyrir hann og börnin. Vinnutap er ekki með í þeirri tölu og meira bætist við.

Tannréttingaferðir ekki endurgreiddar nema tvisvar á ári

„Við fengum að vita það í miðju krabbameinsástandi að dóttir mín þyrfti að fara í tannréttingar og hún þarf að fara á 4-6 vikna fresti í tannréttingar og við fáum samt bara tvær ferðir fyrir hana á ári,“ segir Linda.

Því þarf fjölskyldan, ofan á kostnað vegna krabbameins, að borga sjálf líklega 18 ferðir fyrir dótturina til Reykjavíkur í tannréttingar næstu tvö árin. Mögulega verður hægt að samnýta einhverjar ferðir þannig að Linda og dóttir hennar geti báðar fengið heilbrigðisþjónustu í sömu ferðinni.

Telur of mikinn verðmun á flugfargjöldum

Linda er orðin vel að sér í gjaldskrá flugfélagsins sem hún telur ósanngjarna fyrir þá sem þurfa að fljúga með skömmum fyrirvara eða verða að geta breytt flugi. Það gildir um hana þar sem hún getur þurft að hætta við lyfjagjöf ef líkamlegt ástand mælist ekki nógu gott. Miði með möguleika á breytingu milli Egilsstaða og Reykjavíkur getur kostað yfir 30 þúsund aðra leið og hún spyr hvor þeir sem kaupa slíka miða séu í raun að niðurgreiða önnur fargjöld sem eru mun lægri, jafnvel um 6 þúsund krónur sætið.

Flugfélagið (Iceland Air Connect) hefur sagt í opinberri umræðu að slík ódýr sæti fjölgi þeim sem fljúgi og stækki þannig kökuna. En einnig má gera ráð fyrir því að ákveðinn hópur neiti sér um flug með skömmum fyrirvara vegna þess hversu dýrt það er. Linda telur verðmuninn of mikinn. „Mér fyndist það lang besta lausnin ef það væri sama fargjaldið fyrir alla. Til Reykjavíkur og til baka hvort sem verið er að panta mér margra vikna fyrirvara eða með stuttum fyrirvara. Bara flatt fargjald.“

Vill að ríkið einfaldi líf veiks fólks

Staðan batnar ef ríkið fer að niðurgreiða innanlandsflug að hluta eins og boðað hefur verið. Því fylgir samt áfram talsvert álag og skriffinnska að sækja um endurgreiðslu á ferðum til læknis og Linda vill einfaldara kerfi fyrir þá sem þurfa oft að sækja heilbirgðiþjónustu til Reykjavíkur. „Í fyrsta lagi þá finnst mér að það eigi að vera minna álag á sjúklinga og aðstandendur að vera að standa í þessu. Það er nóg annað sem þarf að takast á við. Í sambandi við flugin þá finnst mér að það eigi að vera einhvers konar klippikortakerfi eða kóði sem hægt er að slá inn þegar maður er að panta flugin þannig að maður þurfi ekki að leggja út fyrir þessu.“