Áfengisgjöld eru langhæst á Íslandi miðað við önnur Evrópulönd en samkvæmt fjárlagafrumvarpi næsta árs hækkar áfengisgjald um 4,7 prósent. Ríkið tekur 94 prósent af verði vodkaflösku.
Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, segir að þessi skattlagning sé fráleit. Félag atvinnurekanda hefur tekið saman skattlagningu á áfengi. Vodkaflaska kostar 7.300 krónur eftir hækkun áfengisgjalds en langmest af því rennur til ríkisins. Hlutur framleiðanda eða innflytjanda er 434 krónur. Áfengisgjaldið er 5.419 krónur, skilagjald 20 krónur, hlutur ÁTVR 705 krónur og virðisaukaskattur 724 krónur. Ríkið tekur því í sinn hlut 94 prósent af verði flöskunnar í formi áfengisgjalds, skilagjalds, álagningar ÁTVR og virðisaukaskatts.
„Þetta er orðið svo rosalegt að þótt framleiðandinn gæfi ÁTVR flöskuna þá myndi hún samt kosta tæplega sjö þúsund krónur, bara út af áfengisgjaldinu, álagningu ÁTVR og vaskinum sem leggst þar ofan á. Þetta er náttúrlega bara orðið út úr öllu korti," segir Ólafur Stephensen.
Hlutur ríkisins er minni í svokallaðri léttvínsbelju sem kostar 5.700 krónur. Þar fær framleiðandi eða innflytjandi 909 krónur. Áfengisgjald er 3.444 krónur, ÁTVR fær 784 krónur og virðisaukaskattur 565 krónur. Ríkið fær því 84 prósent í sinn hlut.