Sigurður Guðmundsson, fyrrverandi landlæknir, veltir fyrir sér hvort stjórnmálamenn hér á landi þurfi að vera gamlir til að skilja hve alvarlegt ástandið er í heilbrigðiskerfinu. Hann er einn af lyflæknum spítalans sem koma á bráðamótttökuna til að sinna alvarlega veiku fólki sem ekki er hægt að leggja inn á spítalann vegna plássleysis.

Rætt er við Sigurð í Mannlega þættinum á Rás eitt. Sigurður var landlæknir í tíu á frá 1998 til 2008. Hann er sérfræðingur í lyflækningum og smitsjúkdómum og starfar á lyflækningasviði Landspítalans. Hann skrifaði grein í síðasta tölublað Læknablaðsins sem ber heitið Taktur og tregi. Hún er skrifuð í tilefni af úttekt Embættis landlæknis á stöðu bráðamóttökunnar sem kom út í desember. Þar lýsir hann áhyggjum sínum af Landspítalanum og heilbrigðiskerfinu. Sigurður starfar nú á bráðamótttökunni. 

Sjúkradeild rekin á bráðamóttöku

„Ég er að vinna við móttöku og umönnun sjúklinga sem eru með lyflæknissjúkdóma þ.e.a.s sem þurfa innlagnar á spítalann við og af því við getum ekki lagt þá umsvifalaust inn á deildir spítalans þá erum við rauverulega að reka sjúkradeild niður á bráðamóttöku með má segja veikustu sjúklingum lyflækningasviðs spítalans. Þetta eru auðvitað ekki kjöraðstæður. Undir venjulegum kringumstæðum hefðum við viljað geta lagt þetta fólk inn beint inn á viðeigandi sjúkradeild en þarna erum við að vinna með þá á bráðamóttökunni sem er náttúrlega eins og járnbrautarstöð mætti segja."

Þegar ekki er hægt að leggja fólk sem kemur á bráðamóttökuna inn á deildir spítalans og vandamál þeirra er á lyflæknissviði þá tekur Sigurður og aðrir lyflæknar af spítalanum við þeim frá bráðalæknunum og annast þá á bráðamóttökunnni. 

Landspítalinn rekur 100 manna hjúkrunarheimili

„Þetta er grein af sama meiði sem sýnir að spítalinn er raunverulega yfirfullur getur ekki sinnt hlutverki sínu fyllilega sem skildi vegna þess að við komum fólki ekki nægilega vel í gegnum stig meðferðar og stig spítalans […] Það má segja að spítalinn sé raunverulega að reka að meðaltali 100 manna hjúkrunarheimili á hverjum tíma með fólki sem er vissulega veikt, aldrað en við sem sjúkrahús erum búin að gera það sem við getum best gert fyrir það."

Sigurður segir að Íslendingar hafi brugðist svolítið sem samfélag vegna þess að ekki hafi verið hægt að útskrifa fólk af spítalanum í viðeigandi úrræði. Þessi þjónusta hafi ekki verið byggð upp nægilega vel og ekki hafi tekist að manna stöður hjúkrunarfræðinga nægilega vel við spítalann. „Þannig að hér er talsverður fjöldi rúma beinlínis lokaður vegna skorts á hjúkrunarfræðingum."

Rennur til rifja hvernig komið er fram við aldrað fólk

Áratugur er síðan Sigurður var landlæknir og honum er heitt í hamsi: „Manni rennur til rifja hvernig við komum fram við aldrað fólk. Þetta er fólkið sem er fætt um og fyrir miðja síðustu öld. Þetta er fólkið sem bjó Ísland til eins og það er núna sem við erum að græða á og njóta en okkur tekst ekki þegar á bjátar og ekki síst þegar fólk er með langvinna erfiða sjúkdóma sem versna hægt. Þar stendur heilbrigðisþjónustan sig ekki nægilega vel. Við erum mjög góð í að meðhöndla bráðasjúkdóma og bráðamóttakan hér við þennan spítala stendur sig gríðarlega vel að því leyti til." 

Hins vegar gengur ekki eins vel þegar verið er að meðhöndla langvinn vandamál.

„Þú manst að Guðrún Ósvífursdóttir sagði: „Þeim var ég verst er ég unni mest" og það má kannski snúa þessu svolítið upp á það að þeim erum við verst sem þurfa mest á okkur að halda. Því miður þá er þetta svona og þetta er engin ný bóla þetta er búið að ganga svona áratugum saman okkur hefur einhvern veginn sem samfélag ekki tekist að laga þetta."

Ekki nægilegt fjármagn í heilbrigðiskerfinu

Afhverju? „Okkur hefur ekki tekist í fyrsta lagi að setja nægilega mikið fjármagn í þetta. Við rekum heilbrigðisþónustu að meðaltali fyrir minna fjármagn heldur en meðal land OECD, þannig að við erum ekkert óskaplega dýr satt að segja og síðan er ábyggilega einhver skortur að samhæfingu þjónustunnar hjá okkur. Okkur tekst ekki nægilega vel að vinna saman." 
 
Er eitthvað skilningsleysi, ertu með kenningar um hvers vegna þetta virðist ekki virka? 

„Þú notar orðið skilningsleysi kannski er það hluti vandans ég held að allir séu að reyna að gera sitt besta, ég dreg það ekki í efa, og ég skal alveg viðurkenna það ég hef fulla samúð með stjórnmálamönnunum sem bera ábyrgð á því hvernig við deilum fjármunum í landinu. En þetta er eigi að síður svo mikilvægur málaflokkur, að því okkur mörgum finnst, og ég tala nú ekki um þegar fólk fer nú að eldast og hefur meiri og meiri þörf fyrir þjónustu þá kannski sér maður þetta betur í kringum sig hvað þörfin er gríðarleg. Kannski er það þannig að stjórnmálamennirnir okkar, þeir sem ráða fjármununum, að þeir séu einfaldlega of ungir til að botna í þessu. Það kann að vera. Kannski þurfum við að fá gamla stjórnmálamenn til að skilja þetta." 

Vísindastarf Landspítalans á niðurleið

Sigurður hefur áhyggjur af vísindastarfi á Landspítalanum. Því hafi farið aftur og fyrir því séu eflaust margar ástæður.   

„Hér fyrir um það bil tæpum 10 árum þá var Landspítalinn á toppnum meðal sjúkráhúsa á Norðurlöndum að því er varðar tilvitnanir í greinar sem héðan komu. Og það að það sé vitnað oft í vísindagrein þýðir að hún sé bara fjandi góð. Hún segi eitthvað þannig að áhrif hennar eru veruleg. Þessi áhrif greina eða vísindastarfs frá Landspítalanum hefur minnkað. Núna erum við komin í neðsta sæti á Norðurlöndum og komin undir heimsmeðaltal að þessu leyti.“

Sigurður segir að hægt sé að týna til ýmsar skýringar. Augljóslega sé álag á fókinu á Landspítalanum það mikið að það hefur ekki tíma til að sinna þessum verkum.  Ekki hafi tekist að taka frá tíma fyrir vísindarannsóknir. Auk þess hefur ekki gengið nægilega vel að fá styrki til vísindarannsókna. 

„Og núna bara sannaðist það, núna síðast við síðustu úthlutun frá Rannís þar sem heilbrigðisvísindi koma frekar illa út í þeirri úthlutun."

Heilbrigðisvísindi bera skarðan hlut frá borði

Sigurður segir að heilbrigðisvísindi séu flaggskip rannsókna á Íslandi þegar litið er til áhrifa á alþjóðlegum vettvangi og sama eigi við um jarðvísindi. 

„Þess vegna skýtur það svolítið skökku við að þau beri svona skarðan hlut frá borði í þessari úthlutun. Þarna er enn þessi sami fjandans samnefnari sem við þurfum að taka á og það er að setja meiri fjármuni í þetta því allar þjóðir sem hafa horft til mikilvægis vísinda í heilbrigðisþjónustu hafa áttað sig á því hvursu gríðarlega miklu máli það skiptir fyrir hálskólasjúkrahús eins og okkar spítala að leggja áherslu á akademíu, leggja áherslu á rannsóknir, vísindi og leggja líka áherslu á kennslu að koma þessari þekkingu á framfæri. Þetta tvennt, ef við leggjum áherslu á þetta og gerum þetta að einu af meginmarkmiðum háskólaspítala, það hefur ekki síst þau áhrif að það bætir meðferð sjúklinga á spítalanum. Það dregur að gott fólk og það eykur sveifluna í því sem við erum að gera. Og á því græðir fyrst og fremst einn hópur af fólki og það eru sjúklingarnir okkar."