Réttað 18. júlí þegar Polar Nanoq er í höfn

Héraðsdómur Reykjavíkur 2. mars 2017
 Mynd: RÚV
Aðalmeðferð í máli Thomasar Møllers Olsens fyrir morðið á Birnu Brjánsdóttur hefst 18. júlí. Þá verður grænlenski togarinn Polar Nanoq í höfn á Íslandi. Olsen var skipverji á togaranum þegar morðið var framið. Að sögn saksóknarans Kolbrúnar Benediktsdóttur stendur til að nýta tækifærið 18. júlí til að taka vitnaskýrslur af öðrum skipverjum vegna þess að næst kemur Polar Nanoq ekki til landsins fyrr en í desember.

Kolbrún segir að 13 skipverjar, fyrir utan Olsen sjálfan, séu á vitnalista saksóknara. Þeirra á meðal eru skipstjórinn og maður sem sat um skeið í gæsluvarðhaldi vegna málsins en var síðan sleppt án ákæru. Vitað er að minnst átta af mönnunum þrettán verða í túrnum í júlí, og hugsanlega fleiri. Tekin verður skýrsla af Olsen sjálfum þennan dag og þeim skipverjum sem verða á landinu, en síðan er líklegt að réttarhöldunum verði frestað þangað til að loknu sumri, að sögn Kolbrúnar.

Mynd með færslu
Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari.  Mynd: RÚV

Þeir sem ekki tekst að taka skýrslu af fyrir dómi þennan dag verða annað hvort boðaðir til landsins, en þeirri boðun þurfa erlendir ríkisborgarar ekki að sinna, eða að tekin verður símaskýrsla af þeim.

Fyrirtaka var í málinu í Héraðsdómi Reykjaness í dag og þar lagði Páll Rúnar Kristjánsson, verjandi Olsens, meðal annars fram samantekt fjölmiðlaumfjöllunar um málið. Kolbrún segist aðspurð ekki vita í hvaða tilgangi hann hefði gert það. „Það kom engin skýring frá honum um það,“ segir hún.

Dæmi eru um að refsing manna sé milduð vegna óvæginnar fjölmiðlaumfjöllunar um mál þeirra, en Kolbrún segist ekki vita hvort það sé það sem vaki fyrir verjandanum núna.

Páll Rúnar lagði einnig nýja spurningu fyrir þýskan réttarmeinafræðing sem sinnt hefur málinu. Nú var honum falið að meta það hversu lengi líkami Birnu hefði verið í sjó þegar hann fannst.